146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:00]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var hressandi ræða hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni eins og honum var von og vísa. Nú liggur það fyrir og um það verður ekki deilt að hin alþjóðlega bankakreppa skrifast ekki á reikning hans.

Mig langar aðeins til að ræða efnislega um kvótakerfið, gjaldtöku o.s.frv. og spyrja hv. þingmann og fyrrverandi hv. sjávarútvegsráðherra hvernig hann telji rétt almennt að standa að gjaldtöku í sjávarútvegi. Hvort það eigi að miða við afkomu með beinum hætti, hvort það eigi að vera sérstakt álag t.d. á tekjuskatt sjávarútvegsfyrirtækja, eða hvort núverandi fyrirkomulag sé skynsamlegt og réttlátt óháð fjárhæðum í þessu. Ég skil hins vegar ekki alveg hvort ráðherrann — hv. þingmaður, ég er orðinn svo vanur að hv. þingmaður gegni ráðherraembætti, ég þarf að venja mér af þessu. (SJS: Óskhyggja.) Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig vill hann í raun skipuleggja nýtingu sjávarauðlindarinnar, með hvaða hætti? Mér fannst hann slá svona í og úr, annars vegar væri hann hlynntur kvótakerfinu en síðan í hinu orðinu virtist hann vera andstæðingur þess og finna því allt til foráttu. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það þannig að hann telji að þrátt fyrir alla sína galla sé skynsamlegt að halda áfram og þróa kvótakerfið? Eða vill hann (Forseti hringir.) umbylta kerfinu með öllu og taka upp sóknardagakerfi eða hvernig það nú er?