146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:05]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Við eigum kannski eftir að fá tækifæri til þess að ræða frekar saman um þetta mikilvæga mál.

Vandinn hins vegar við auðlindarentuna er hvernig við finnum hana út. Það er nefnilega þannig að það fer eftir því hver heldur á málum. Auðlindarenta eins fyrirtækis getur verið miklu hærri en auðlindarenta annars. Það fer eftir því hvernig menn standa að útgerðinni, hversu skynsamir menn eru. Það fer m.a. eftir því hvernig menn fara með sjávarfangið og það fer líka eftir því hvernig menn vinna markaði og standa að sölumálum almennt og hvaða árangri þeir ná.

Þannig að auðlindarentan er í sjálfu sér fallegt og göfugt markmið og það getur verið skynsamlegt, en vandinn er hins vegar sá að finna út þessa auðlindarentu, hver hún raunverulega er. (Forseti hringir.) Hún er auðvitað eins mismunandi og útgerðirnar eru margar. (VOV: … markað.)