146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það var nú ekki þannig að mér tækist að blunda í forsetastólnum því ég gat það ekki, hv. þingmaður talaði svo hátt. [Hlátur í þingsal.] Það voru þvílík læti í honum hérna.

Það er gott að hv. þingmaður fer betur yfir hvað hann var í raun og veru að fara með tali sínu, sem mér fannst stappa ansi nærri því að þarna væri stjórnarskrárvarinn, ef ekki beinn eignarréttur þá a.m.k. óbeinn að einhverju leyti í höndum útgerðanna. Þetta er gamalkunnug þræta og umræða. Ég fagna því ef svo er ekki.

Nú er það svo að lögin eru alveg skýr. Þetta er sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Þau eru líka skýr að öðru leyti sem lítið er talað um, að úthlutun réttindanna er aðeins til eins árs í senn. Það er nú þannig. (Gripið fram í.) Þetta eru að vísu ótímabundin lög en úthlutunin er árleg. Þetta er ekki samningur til einhvers tiltekins tíma, eins og menn hafa stundum verið að ræða, þetta er árleg úthlutun. En vissulega eru flestir sammála um það, ekki allir þó, meira að setja fyrrverandi hæstaréttardómarar hafa talið að ríkið gæti nánast gert það sem því sýnist á hverju ári með þennan rétt. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að það sé nokkuð ljóst að breytingar sem stjórnvöld vilja innleiða verða að standast almennar kröfur þar um, þ.e. að samræmast meðalhófsreglu og vera ekki svo bersýnilega ósanngjarnar og íþyngjandi að það sé ekki réttlætanlegt. Þar af leiðandi hafa menn yfirleitt talið að það yrði að vera aðlögunartími að slíkum breytingum eða þær yrðu að vera hlutfallslegar, fyrning einhvers hluta veiðiheimildanna á ári o.s.frv. Ein leið væri sú að senda út tilkynningu eins og Færeyingar gerðu til að tilkynna að eftir 10 ár, 15 ár, verði allar veiðiheimildir lausar og enginn geti gert kröfur til þeirra þá umfram aðra, þá hefðu allir þann aðlögunartíma (Forseti hringir.) að því að búa sig undir að nýtt kerfi t.d. gæti tekið gildi.