146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er svona nærri lagi sem kom fram í andsvari hv. þingmanns.

Á grundvelli fullveldisréttarins getum við auðvitað ákveðið að hér verði frjálsar veiðar. En það er allt annar handleggur að taka af réttindi. Menn hafa keypt þessa hlutdeild, keypt hana dýrum dómi, og þá gerist það ekki þannig. Ég get alveg fullyrt það við hv. þingmann að dómstólar munu aldrei viðurkenna að menn geti tekið þennan nýtingarrétt, sem er auðvitað varinn af stjórnarskránni, bótalaust á einu bretti. Það er alveg rétt að það er hægt að láta það fyrnast á löngum tíma, með langri aðlögun. Það er kannski ekkert óeðlilegt við það. En það er ekki hægt að gera það á einu bretti, eins og sumir flokkar sögðu fyrir kosningar, að innkalla bara (Forseti hringir.) aflaheimildir og selja þær hæstbjóðanda.