146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það tengist aðeins spurningu sem ég náði ekki að svara áðan frá hv. þingmanni um það hvernig þetta var gert í byrjun, að þá hafi menn notað veiðireynsluna til að úthluta heimildum. Já, já, en það var ekkert sjálfgefið að gera það eins og það var gert nákvæmlega. Eins og ég benti á hefðu menn með alveg nákvæmlega sömu rökum getað fest hluta veiðiréttindanna í byggðarlögunum og sagt: Landverkafólkið, fiskvinnslan í landi og sveitarfélögin og byggðarlögin hafa lagt sitt af mörkum til þessarar auðlindar, þau eiga líka rétt. Það var pólitísk ákvörðun, grimm pólitísk ákvörðun, að festa öll þessi réttindi hjá útgerðinni. En svo er auðvitað praktískur veruleiki í þessum efnum að almennt veiða menn fisk á skipum. Mér finnst oft þessi umræða fara alveg út um víðan völl þegar menn fara að tala um það eins og sá dagur gæti allt í einu runnið upp að einn góðan veðurdag ákveðum við að taka allar veiðiheimildirnar og úthluta þeim öllum á leigubílana, eitthvað svoleiðis. Nei, það mundi væntanlega ekki gerast þannig. Fiskurinn verður sóttur af sjómönnum og á skipum. Hvað er þá svona óskaplegt við það að ræða breytingar á þessu fyrirkomulagi? (Forseti hringir.) Það er bara ekki víst að þurfi að gera það svona. Það er ekki endilega víst að einhverjir þurfi að eiga þennan aðgang gulltryggðan um aldur og ævi. Það er ekki endilega víst að einhver útvalin (Forseti hringir.) hirð í landinu geti fénýtt hana endalaust í sína þágu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er ekki sjálfgefið. (Gripið fram í: Enginn að tala um það.) Nei, vonandi ekki.