146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að það hendi ekki að ég verði settur í vitlausa sveit í þessu, af því að ýmislegt er farið að fara á hvolf og menn tala hér mikið um frjálsan markað og láta hann verðleggja þetta og sjá um þetta, þá er ég enginn sérstakur aðdáandi einhvers „frjáls markaðar“. Mér þykir í vestrænum samfélögum sem landamæri markaðarins hafi verið færð of mikið út og hann ráði of miklu um mannlífið og of miklu um það hvernig samfélögin þróast. Ég hef engan sérstakan áhuga á að auka hans vigt í þeim efnum, hvorki á Íslandi né annars staðar. Hann getur verið nytsamlegt tæki svona innan hóflegra marka, en hann á ekki að vera húsbóndi og hann á ekki að ráða öllu. Því hvað er markaðurinn með frelsisforskeytinu framan við annað en afl peninganna? Auðvitað ráða þeir sem hafa aflið í krafti fjármunanna. Ekki vil ég sjá að íslenskur sjávarútvegur sé gerður að enn frekari vígvelli þess að þeir sterku ráði í krafti peninganna.

Ég tel að aflamarkskerfið hafi að sjálfsögðu átt sinn þátt í því að menn fóru að huga meira að gæðum og það leiði bara svolítið af sjálfu. Þegar við Íslendingar urðum að horfast í augu við það árunum fyrir og upp úr 1980 — auðvitað kom kvótakerfið ekki upp úr þurru, það kom ofan í skrapdagakerfi og fyrri svartar skýrslur um ástand þorskstofna, þannig að sá veruleiki fór að birtast okkur á 8. áratugnum að við gætum ekki veitt eins og við gætum, við yrðum að fara að hugsa það upp á nýtt.

Árin frá útfærslu landhelginnar og fram að þessum tíma voru kannski ekkert sérstaklega góð því þá kom tímabil þegar menn reiknuðu með því, af því að við sætum núna einir að miðunum, að við gætum bara veitt alveg endalaust. Þá var gæðahugsunin ekki sterk. Þetta átti þátt í þessu, en alls ekki eina skýringin á því að gæði og framþróun hefur farið fram.

Það er rétt hjá hv. þingmanni. Ég held að megi alveg reikna með því að einhver hluti þróunarinnar og aukinnar fjölbreytni hafi komið til sögunnar þegar stóru sölusamtökin og einokunarkeðjurnar misstu að einhverju leyti sín tök og fleiri aðilar gátu (Forseti hringir.) farið að þróa vörur og koma þeim inn á jaðarmarkaði. Það var ágæt þróun án þess að ég sé endilega að segja að það hafi verið gott að Íslendingar gætu ekki staðið saman á mörkuðum (Forseti hringir.) erlendis, því að það hafði líka góða hluti í för með sér (Forseti hringir.) að menn undirbuðu ekki hvern annan o.s.frv.