146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að mjög erfitt sé að vega og meta saman vægi hvers þáttar um sig. Við skulum segja að aflamarkskerfið, þ.e. sú staðreynd að við áttuðum okkur á og kyngdum því að við hefðum ekki nema takmarkað magn til að veiða á hverju ári, ýtti mönnum í að fara að hugsa: Hvernig get ég gert meiri verðmæti úr þessu takmarkaða magni sem ég má sækja? Það er klárlega þarna.

Í öðru lagi má vel vera að gerjun í sölu- og markaðsmálum hafi líka átt sinn þátt, þ.e. þegar minni aðilar komu til sögunnar sem reyndu að finna sér pláss á markaðnum til hliðar við þá sem fyrir voru og voru uppfinningasamir í sambandi við nýja vöruþróun, verkunaraðferðir og nýja markaði. Um það vitum við alveg dæmi.

Í þriðja lagi var einfaldlega aukin krafa um gæði frá markaðnum, sem ég tel að hefði hvort sem er komið. Það á ekki að heimfæra slíka hluti upp á bara aflamarkskerfið. Rannsóknir, þróun og tækniframfarir hefðu (Forseti hringir.) að sjálfsögðu komið að einhverju leyti án aflamarkskerfis. Þetta eru því margir samverkandi þættir sem ég held að hafi leitt til þess að við höfum náð þeim árangri sem við höfum náð í aukinni verðmætasköpun (Forseti hringir.) úr óbreyttu magni í sjávarútveginum.