146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:36]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann svaraði mér að vísu ekki varðandi aðkomu annarra fulltrúa hagsmunasamtaka í þessa nefnd. Ég er honum ekki sammála með það, þetta þarf að vera fjölmennari nefnd. Ég held að það færi betur á því.

Varðandi innviðauppbygginguna og þann þátt í þessari þingsályktunartillögu þá er greinilegt að hér er í grunninn tillaga um niðurgreiðslu skulda en ekki um innviðauppbyggingu. Ég rökstyð skoðun mína með því að ég er þess þenkjandi að það sé mun vænlegri og ábyrgari hagstjórn að leggjast í breytingar á reglulegri tekjuöflun ríkissjóðs og réttlátar breytingar á skattkerfinu til þess að tryggja stöðugar og reglulegar tekjur í ríkissjóð heldur en með sölu eigna. Þegar ég tala um réttlátari breytingar á skattkerfinu þá er ég að tala um breytingar sem myndu lúta að því að stórfyrirtæki og auðmenn myndu greiða hlutfallslega hærri hlut í innviðauppbyggingu íslensks samfélags. Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra afstöðu flutningsmanns til þessa þótt ég viti nú kannski mætavel fyrir fram svarið hans þegar kemur að breytingum á skattkerfinu og tekjuöfluninni.