146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar, ég gleymdi hagsmunasamtökunum, það er rétt. Það gildir eiginlega það sama. Ég vil helst ekki að hagsmunasamtök komi að þessari vinnu í upphafi vegna þess að ég er að biðja um að þetta sé fræðilega gert, óháðir sérfræðingar vinni þá úttekt sem um er beðið þannig að hún sé ekki lituð eða smituð af einhverjum pólitískum viðhorfum eða sérhagsmunum atvinnurekenda eða launþegasamtaka o.s.frv. Síðan eigum við að taka við á hinum pólitíska vettvangi þegar við erum búin að fá þessa heildarmynd. Mér finnst það skynsamlega að verki staðið að gera það með þessum hætti.

Varðandi tekjuöflunarkerfi ríkisins þá verð ég að segja að ein besta leiðin til að auka tekjur ríkisins og hins opinbera, sveitarfélaganna líka, er auðvitað að örva efnahagslífið, gera það meira lifandi og dýnamískara þannig að til verði auknar tekur á öllum sviðum, hvort heldur hjá fyrirtækjum eða launamönnum o.s.frv. Ég trúi því og það er hægt að vitna í sögu hér, bæði á Íslandi og annars staðar, að ef menn gæta hófsemdar í opinberum álögum þá aukast tekjur hins opinbera. Það er bara svona. Vísasta leiðin til að drepa niður tekjustofna og draga úr tekjum ríkissjóðs og sveitarfélaga er einmitt að ganga of langt og setja of íþyngjandi skatta og gjöld á fyrirtæki og almenning. Það mun draga úr tekjum hins opinbera og þar með möguleikum til að standa undir þeim sameiginlegu verkefnum sem við erum þó sammála um að við eigum að sinna.