146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna framlagningu þessarar þingsályktunartillögu. Það er langt síðan ég hef séð jafn grímulausa nýfrjálshyggju og birtist í tillögunni og enn fremur birtist hún í síðustu orðum hv. þm. Óla Björns Kárasonar, hin aldagamla kenning nýfrjálshyggjunnar um að stækka þurfi kökuna og þá verði allt gott, væntanlega vel skreytta köku, og brauðmolakenningin muni sjá um rest. Ég fagna þessu. Það er gott að menn skuli koma hreint fram og tala eins og þeim er í blóð borið að gera. Þetta er svo langt gengið í átt til nýfrjálshyggju að ég sé ekki betur en að eitt af því sem er lagt til sé útvistun skattheimtu, því að sérfræðingahópurinn á m.a. að meta möguleika ríkisins til að ráðast í fjárfestingar í innviðum án skuldsetningar, svo sem með skatttekjum. Hvernig er nú komið? Þurfum við að fara að láta einhverja sérfræðinga úti í bæ meta það hvernig við getum ráðist í hluti með skatttekjum? Er ekki (Gripið fram í.) hv. þingmaður aðili að stjórnarmeirihluta hér? Það sem meira er þá á lokaskýrslan að gefa skýra mynd af þeim innviðafjárfestingum sem nauðsynlegar eru á komandi árum. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér kosningaloforð þeirra flokka sem núna mynda ríkisstjórnina. Þar er ágætislisti yfir þær innviðafjárfestingar sem við teljum að sé nauðsynlegt að fara í.

Í allri þessari tillögu er eingöngu gengið út frá þessum einfalda svart/hvíta raunveruleika sem snýst um ríkiseignir sem eru (Forseti hringir.) ekki góðar og að það þurfi að koma þeim í verð. Það er hvergi talað um þá sem nýta þjónustuna (Forseti hringir.) eða það sem viðkemur umræddum ríkiseignum. Þetta er einfaldlega (Forseti hringir.) nýfrjálshyggjan holdi klædd. Það er fallegt (Forseti hringir.) að sjá hana þótt hún sé ekki falleg.