146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að því miður munum við hv. þingmaður seint verða sammála en það er allt í lagi, ég sætti mig við það. Ég var svo gæfusamur á mínum yngri árum að eiga marga góða vini sem voru miklir vinstri menn. Við áttum góðar rökræður og hnakkrifumst oft en skildum alltaf sem vinir. En guð minn almáttugur, það er auðvitað bent á það, og það segir hv. þingmaður með nokkurri einföldun, að við stöndum frammi fyrir þeim kosti að taka ákvörðun að ríkið skuli halda áfram að eiga allt sem það á, þar á meðal alla eignarhluti í fjármálafyrirtækjum upp á 450 milljarða eða losa þá fjármuni að einhverju leyti, að hluta, á einhverjum tíma og nota þá í innviði og/eða lækkun skulda. Ef hv. þingmaður telur að það sé nýfrjálshyggja get ég ekki hjálpað til í þeim efnum. Þetta er ekki spurningin um það. Þetta er spurningin um það hvernig og í hvaða verkefni við ætlum að nota sameiginlegar eigur okkar. Ég segi: Sameiginlegar eigur okkar eru ekki best nýttar í fjármálafyrirtækjum. Ég vil frekar hafa þær í sjúkrahúsum, í skólum, í vegakerfinu. Ef það er nýfrjálshyggja, hv. þingmaður, þá er ég nýfrjálshyggjumaður.