146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[16:50]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Það er svo sannarlega gleðilegt að hv. þm. Óli Björn Kárason vill fjárfesta í innviðum. Hann talaði um syndir fortíðar áðan og nefndi 500 milljarða sem skorti í þá. Ég efast ekki um að þessi upphæð láti nærri lagi. Og það er alveg rétt, auðvitað verðum við að lækka skuldir. Við verðum að fjárfesta í innviðum.

En áður en lengra er haldið get ég ekki látið hjá líða að rifja örlítið upp. Þessar syndir fortíðar, það er ástæða fyrir þeim. Sporin hræða. Ég velti því nefnilega fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokkurinn kunni að selja ríkiseignir svo vel fari. Við urðum vitni að því upp úr aldamótum að hér voru ríkisbankar einkavæddir. Sú einkavæðing mistókst herfilega, svo ekki sé meira sagt. Við höfum fylgst með því líka síðustu misserin hvernig eignir ríkisins hafa verið seldar á vakt Sjálfstæðisflokksins. Þar dettur mér í hug, því að hv. þingmaður nefndi fjárfestingarþörf upp á 500 milljarða og bar fyrir sig skýrslu frá Gamma, hvernig eignasafn Íbúðalánasjóðs hefur verið selt undanfarin misseri á vakt, eins og ég segi, Sjálfstæðisflokksins. Það er dæmi um afdrifarík mistök þar sem hákarlar á fasteignamarkaði hafa keypt íbúðir í hundraðavís og stuðlað að enn meiri þrengingum á húsnæðismarkaði á meðan almenningur hefur á sama tíma haft mjög takmarkaðan aðgang að slíkum íbúðum. Það er svo sem óþarfi að telja upp fleiri dæmi.

Það er eitt sem vantar í þessa þingsályktunartillögu. Það snýr einmitt að því hvernig komið verði í veg fyrir að þessi afdrifaríku mistök sem Sjálfstæðisflokkurinn varð uppvís að, í samráði við aðra reyndar, verði endurtekin. Þá á ég við hvernig komið verði í veg fyrir sölu ríkiseigna til flokksgæðinga og að þeim verði úthlutað eftir einhverju slíku kerfi. Það er spurning hvort ekki verði hægt að selja þær á frjálsum markaði til tilbreytingar, fyrst það var nú verið að tala um frjálsan markað hér áðan í sambandi við fiskveiðistjórn.

Það er tvennt sem vekur mig til umhugsunar þegar ég les þessa þingsályktunartillögu, reyndar er þar margt sem vekur mig til umhugsunar en tvennt vil ég tiltaka sérstaklega. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir minntist á fámennan hóp sérfræðinga sem á að vinna þessa vinnu. Hv. þm. Óla Birni Kárasyni þótti það ekkert tiltökumál þótt þetta væri unnið í flýti. Þessir þrír sérfræðingar eiga að fjalla um aðskilin og eðlisólík mál. Annars vegar að fjalla um sölu ríkiseigna, jú og hvernig hægt sé að nota andvirðið til að lækka skuldir o.s.frv. Og þar erum við komin að hinu, fjármögnun innviða. Og ég spyr mig: Væri ekki rétt að aðskilja þessi tvö meginatriði? Þessir þrír sérfróðu aðilar þurfa ekki endilega að vera sérfróðir í heilbrigðis-, menntamálum og samgöngumálum þótt þeir séu sérfróðir um það hvernig hægt sé að koma eignum ríkisins í verð.

Virðulegur forseti. Ég hef áhyggjur af f-lið þingsályktunartillögunnar. Þar stendur, varðandi mat á því hvað eigi að standa í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Mat á því hvort skynsamlegt sé að fjármagna innviðafjárfestingar, að hluta eða öllu leyti, með samstarfsfjármögnun opinberra aðila og einkaaðila.“

Þarna höfum við það. Einkavæðing, einkarekstur er ég smeykur um að þarna eigi að lauma inn svo lítið beri á. Hv. þm. Óli Björn Kárason hefur nú í tvígang sent inn fyrirspurnir til ráðherra, þ.e. bæði fyrir jól og eftir að þing kom saman eftir jól, þar sem hann spyr út í eftirlitsstofnanir og kostnað við þær. Það er gaman að því að þingmaðurinn skuli hafa áhuga á eftirlitsstofnunum. Það var nefnilega skortur á þeim sem varð m.a. til þess að hér varð hrun, sem menn kölluðu reyndar í hæðnistón í Valhöll og í Hádegismóum „svokallað hrun“ eins og það væri valkvæð upplifun þegar gengi krónunnar hrundi um tugi prósenta og fjölskyldur misstu aleigu sína og fyrirtæki fóru á hausinn. En það er allt annar handleggur.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þingmaðurinn stefnir kannski að því að þessar innviðafjárfestingar verði að einhverju leyti fólgnar í því að einkavæða eftirlitsstofnanirnar. Það kæmi mér ekki á óvart. Ég hef reyndar ekki endilega mestar áhyggjur af því. Ég hef meiri áhyggjur af því að menntakerfið og heilbrigðiskerfið verði einkavætt.