146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[17:08]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Mér þykir nokkuð gott að sjá tillögu um að gerð sé langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, enda hefur mér yfirleitt þótt sala ríkiseigna vera að jafnaði framkvæmd af miklu handahófi og oft að því virðist að tilefnislausu að öðru leyti en því að koma eignum undan. Mér finnst einnig gott að gera langtímaáætlun um lækkun skulda ríkissjóðs en nú er slík langtímaáætlun í rauninni til í formi fjármálastefnu ríkisins sem miðar út frá þeirri reglu að komast undir 30% af vergri landsframleiðslu. Ég spyr: Hvert er markmiðið með þessu?

Í tillögunni er talað um að reyna að lækka ríkisskuldir, en sala eigna, þ.e. einkavæðing ríkiseigna, er oft réttlætt á grundvelli lækkunar á ríkisskuldum, en hafa verður í huga að lækkun ríkisskulda þýðir að jafnaði minnkun á einkasparnaði í hagkerfinu í heild. En það er ekki stóra vandamálið að ríkið skuldi svo mikla peninga í augnablikinu. Við erum jú aðeins ofan við sett markmið og mætti að sjálfsögðu halda áfram að borga niður ríkisskuldir. En stóra vandamálið er ekki há skuldastaða heldur hár vaxtakostnaður sem skýrist af mjög háu vaxtastigi. Ég vísa í Ólaf Margeirsson hagfræðing en ég spurðist í algeru gríni fyrir um háar skuldir ríkissjóðs, hvort þær leiddu af sér háan vaxtakostnað. En staðreyndin er: Nei. Ekki í Japan, svo ég vitni í hann. Getur verið að þarlend peningastefna skipti máli? En á Íslandi? Svarið er já.

Það er nefnilega mikið til þannig að peningastefnan á Íslandi hefur löngum gert okkur mjög erfitt fyrir varðandi vaxtakostnað og útgjöld ríkisins. Það er alveg rétt að ríkisskuldir hafa lækkað. Þær hafa lækkað svo hundruðum milljarða nemur á síðustu árum. En vaxtakostnaðurinn hefur ekki lækkað nema um 4 milljarða á ári og við sitjum enn þá uppi með 70 milljarða árlega vaxtabyrði.

Því er ekki augljóst að með þessari tillögu verði neinn árangur í áttina að því markmiði að hætta að dæla peningum úr ríkissjóði í vasa, ja, fyrst og fremst lífeyrissjóða, ef satt skal segja. Hættan á því að fara í svona áætlunargerð um sölu ríkiseigna er sú að menn missi sjónar á raunverulega markmiðinu, sem er að greiða töluvert minna, að mínu mati, en 70 milljarða kr. í vexti árlega. Það ætti að vera markmiðið.

Því mætti kannski bæta við í tillögu af þessu tagi einhvers konar áætlunargerð gagnvart háu vaxtastigi. Ég hef verið að bíða eftir slíkri tillögu frá hæstv. ríkisstjórn en ekkert hefur bólað á henni. En mér finnst nefnilega alveg ótrúlegt, og ég hef sagt það áður í þessum ræðustól, að heyra ríkisstjórnina berja sér á brjóst um ágæti þess að vera með lánshæfismat upp á A mínus meðan vaxtastigið er svona hátt í landinu. Ég fagna því vissulega að hér sé gengið út frá því að reyna að kortleggja nauðsynlega innviðauppbyggingu enda er mikil þörf á henni því að innviðir falla ansi oft milli skips og bryggju í umræðunni. En að setja þetta tvennt í samhengi hvort við annað er alveg galið.

En fyrst við tölum um innviðina gætum við talað um innviði heilbrigðisþjónustu, þar sem heilbrigðisinnviðirnir hafa fengið að grotna niður helst til mikið undanfarin ár, og nú höfum fengið smjörþefinn, af því að markmiðið er að skipta út þessum samfélagslegu innviðum fyrir einhvers konar einkarekstur. Sömuleiðis eru vegir landsins margir hverjir í slæmu ástandi. Reykjavegur á Suðurlandi og Vatnsnesvegur þurfa báðir úrbætur, og svo náttúrlega hringvegurinn og fleiri vegir.

En allt liggur þetta svo sem fyrir í samgönguáætlun sem einhverra hluta vegna er ekki hægt að fjármagna til fulls. Þrátt fyrir að þingið vilji gjarnan lofa öllu fögru þegar kemur að samgöngumálum, og reyndar fleiri málaflokkum, þá fylgir sjaldnast viljinn til þess að fjármagna það. Ríkisfjármál eru nefnilega oft teiknuð upp sem einhvers konar samkeppni milli væntinga og raunveruleika þar sem lögmál heimilisbókhaldsins eru dregin fram og á einhvern hátt gjaldgeng. En ríkisfjármál eru fyrst og fremst ekki heimilisbókhald. Þau lúta bara allt öðrum lögmálum.

Ég fagna að sjálfsögðu öllum tilraunum til að kortleggja ríkisfjármálin, kortleggja innviðauppbygginguna og skilja til dæmis hverjar eignir ríkisins eru vegna þess að við höfum í raun ekki heildrænt yfirlit yfir það í dag. Ég vona að vinna af því tagi geti m.a. orðið til þess að heildrænar, opinberar skrár verði gefnar út og þeim haldið við til lengri tíma. Gagnsæi í stjórnsýslunni er alltaf af hinu góða. En ég hef áhyggjur af þeirri endalausu skammsýni, svo ekki sé talað um hagfræðilegu ólæsi, að halda því fram að sala ríkiseigna geti komið á góðu ástandi í ríkisfjármálum. Ég myndi miklu frekar vilja sjá einhverja skynsemi.

Mig langar að benda á að í mínu gamla starfi þar sem ég fékkst við rannsóknir, m.a. á spillingu, töluðum við oft um að það væru tíu spillingarmynstur sem kæmu alltaf aftur og aftur fram í mismunandi birtingarmyndum. Eitt þeirra helstu er það að moka eignum og verðmætum út úr ríkinu í þágu sérhagsmuna. Þótt slíkt tíðkist um víða veröld — mér verður hugsað til Mið-Asíu, Kákasus-landanna, Austur-Evrópu og líka ansi margra annarra landa — þá á það ekki að tíðkast á Íslandi. Ég er ekki að segja að við eigum aldrei að selja ríkiseignir. Það er kannski ekki alveg raunhæft. En ég vil að við förum afskaplega varlega í allt slíkt. Við þurfum gríðarlega sterkt regluverk um það. Síðan þurfum við að láta alfarið af þeirri bilun að halda að við getum borgað fyrir einstakar skammtímaframkvæmdir sem þurfa kannski viðhald, þurfa aðrar tengdar framkvæmdir og þar fram eftir götunum, að reyna að borga það alltaf með því að losa sig við eignir sem í einhverjum tilfellum gætu framkallað arð, eins og var með mörg sveitarfélög sem seldu fasteignir sínar til Fasteignar ehf. fyrir nokkrum árum. Þar breyttist rekstrarkostnaður yfir í leigukostnað og ástandið skánaði ekki, enda er ekki að ástæðulausu sem Reykjanesbær hefur verið í gjörgæslu sem eitt þeirra sveitarfélaga sem hefur selt eignir með þessu móti.

Þessi endalausa einkavæðing eigna er skammtímahugsun, hún er fáránleg. Hún stemmir ekki við raunveruleg hagfræðileg rök. Ef fólk hefur raunverulegan áhuga á að reyna að minnka skuldir ríkisins, vinnum þá að því, reynum að fjármagna það með einhverju móti. Kannski með auknum arðgreiðslum úr einhverjum af þessum ríkisfyrirtækjum, kannski með einhverju öðru. En horfum á raunverulega vandamálið. Raunverulega vandamálið er hátt vaxtastig í landinu sem skaðar neytendur, skaðar fólk á almennum markaði sem er að reyna að taka lán, reyna að fjármagna uppbyggingu fyrirtækja eða fjármagna húsnæði. Og skaðar líka ríkissjóð sem þarf að borga um 70 milljarða kr. á ári í vexti.

Þetta er raunverulega vandamálið sem þarf að fást við. Og þó svo að mér lítist ágætlega á að við kortleggjum þessa hluti held ég að við megum alls ekki missa sjónar á því markmiði.