146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framlagning tveggja skýrslna.

[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hlýt að koma hér upp og spyrja hæstv. forsætisráðherra um skýringar á því að tvær skýrslur sem hann lét vinna sem fjármála- og efnahagsráðherra meðan hann gegndi því embætti birtust ekki fyrr en seint og um síðir. Önnur var skýrsla um stórpólitískt mál, eignir Íslendinga í aflandsfélögum sem efnahags- og viðskiptanefnd rak á eftir í október sl. en birtist ekki fyrr en nýlega. Hæstv. ráðherra hefur sagt að það hafi verið mistök að sú birting hafi dregist. Hins vegar er það skýrsla um skuldaleiðréttinguna. Sú skýrsla var samþykkt á Alþingi í október 2015 þannig að það tók ótrúlega langan tíma að vinna þá skýrslu sem unnin var að beiðni minni og átta annarra þingmanna um mál sem var stærsta pólitíska mál síðustu ríkisstjórnar og síðasta kjörtímabils. Hún er líka nýlega komin fram.

Ég held að hvorki ég né hæstv. forsætisráðherra séum dómbær á það hvort innihald þessara skýrslna hefði endilega haft áhrif á úrslit síðustu kosninga. Ég heyrði því fleygt í gær, haft eftir hæstv. forsætisráðherra, að hann teldi að það hefði engu máli skipt þótt þær hefðu birst fyrr. Það er ekki aðalatriði þessa máls, frú forseti, það er algjört aukaatriði og hvorki ég né hæstv. ráðherra erum dómbær á það hvort þetta innihald hefði haft eitthvað að segja um úrslit kosninganna. Aðalmálið er skylda ráðherra til þess að koma upplýsingum á framfæri, annars vegar við Alþingi og hins vegar við almenning. Það er stóra málið hér. Við eigum rétt á því annars vegar að skýrslubeiðnum frá alþingismönnum sé svarað og hins vegar á almenningur rétt á því að upplýsingar sem liggja fyrir séu birtar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sem nú leiðir ríkisstjórn, leiðir samskipti framkvæmdarvaldsins við löggjafarvaldið, (Forseti hringir.) hvort hann sé sáttur við þessa frammistöðu, hvort hann telji að ekki hefði átt að gera betur í birtingu þessara gagna og hvort hann skuldi ekki Alþingi afsökunarbeiðni fyrir það að þessar upplýsingar hafi ekki berið birtar fyrr.