146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framlagning tveggja skýrslna.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er meira en sjálfsagt að ræða þessi mál eftir hvaða leið sem þingmenn vilja; hér í þingsal, í þessum fyrirspurnatíma og með sérstökum umræðum sem ég hef samþykkt að tala hér um þessi mál í vikunni. Ég hef áður verið að svara fyrir þessi mál. Nú er því velt upp í tengslum við þessi mál að þetta tengist hinni almennu skyldu ráðherra til að svara þinginu. Það er látið eins og það sé algert einsdæmi að málum hafi ekki verið svarað. Þannig var t.d. í þeirri ríkisstjórn sem hv. fyrirspyrjandi sat í að í apríl 2013 (Gripið fram í: Svaraðu.) hafði fjölda fyrirspurna ekki verið svarað. Það munu hafa verið 19 skriflegar fyrirspurnir sem ekki var svarað fyrir kosningarnar 2013.

Hér er spurt um ástæður þess að annars vegar aflandsskýrslan kom ekki til þingsins og ég hef margoft svarað því, það var vegna kosninganna og þeirrar ætlunar minnar að leggja skýrsluna inn til nefndarinnar sem það fórst fyrir, og ég hef sagt það að ég hefði betur látið málið til þingsins eins og aðstæður voru. En þeir sem helst hafa rætt um þetta mál hafa auðvitað í öðru orðinu allan tímann látið sem svo að í skýrslunni væri að finna upplýsingar sem alveg bráðnauðsynlegt væri að koma á framfæri við fólkið í landinu fyrir kosningar.

Þegar ég síðan spyr hverjar þessar upplýsingar eru, hvað það er í skýrslunni sem er svona mikilvægt og skiptir svona miklu máli og hefði getað valdið straumhvörfum í kosningum, þá verður fátt um svör. Þá bakka menn niður í þessa almennu afstöðu að það sé svo mikilvægt að ráðherra skili skýrslu til þingsins. Ég tek undir það.

En því miður er það þannig og það er ekkert nýtt að ekki hefur tekist að svara öllum skriflegum fyrirspurnum frá Alþingi innan tímamarka, því miður. Hv. fyrirspyrjandi þekkir það ágætlega vegna þess að hún svaraði sjálf ekki öllum fyrirspurnum (Forseti hringir.) fyrir kosningarnar 2013.