146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

breytingar á Dyflinnarreglugerðinni.

[15:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vík fyrst að síðustu spurningunni. Það er einkum það, eins og ég lýsti áðan, að uppi eru hugmyndir um að hefta för hælisleitenda eftir að þeir hafa fengið afgreiðslu um hæli. Það kallast á ensku, með leyfi forseta, „secondary movement“. Það er t.d. grundvallarþáttur og varðar grundvallarskipulag Schengen-samkomulagsins. Dyflinnarreglugerðin og þátttaka Íslands í henni byggir auðvitað á samkomulagi. Í eðli sínu er það því þannig að grundvallarbreyting á Dyflinnarreglugerðinni felur í sér grundvallarbreytingu á samstarfinu.

Hér var líka spurt um aukna samábyrgð. Ísland leggst að sjálfsögðu ekki gegn aukinni þátttöku og móttöku hælisleitenda hér á landi, enda stendur Ísland sig afskaplega vel í móttöku hælisleitenda, hvort heldur er út frá þátttöku á kvótaflóttamönnum eða móttöku (Forseti hringir.) umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ísland stendur sig miðað við höfðatölu ákaflega vel í því samhengi og ætlar að halda áfram í því og mögulega fjölga móttöku kvótaflóttamanna hér á landi.