146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

sjómannadeilan.

[15:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim ráðherrum og þingmönnum sem segja að mikilvægt sé að samningsaðilar í sjómannadeilunni axli ábyrgð og finni lausn við samningaborðið nú þegar verkfallið hefur staðið í á áttundu viku.

Sjávarútvegur er ein okkar allra mikilvægustu atvinnugreina og sérstaklega er hún hryggjarstykkið og stundum eina atvinnugreinin í sumum byggðum hringinn í kringum landið, smáum sem stórum. Staðan er ekki góð. Við erum að tapa mörgum af bestu mörkuðum okkar, þeim sem gefa hæst verð. Heildartala fiskvinnslufólks á atvinnuleysisskrá er nær 1.600 manns. Flutningsfyrirtæki og önnur þjónustufyrirtæki við greinina eiga mjög erfitt. Smátt og smátt blæðir litlu fyrirtækjunum út sem mun ýta undir enn frekari samþjöppun í greininni, sem er þó næg fyrir og eitt helsta umfjöllunarefni stjórnmálanna síðustu misseri hvernig bregðast skuli við. Á sama tíma stígur hver ráðherrann fram með hæstv. sjávarútvegsráðherra í broddi fylkingar og segir ríkisvaldið ekki koma að þessu stórkostlega efnahagslega vandamáli, ekki á nokkurn hátt.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra sem á síðasta sumri, sem fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, var tilbúinn til við að hjálpa við lausn deilunnar þá með því að opna á að taka upp dagpeningafyrirkomulag, eins og þekkist hjá öðrum stéttum sem vinna fjarri heimili, en þá lá fyrir þinginu frumvarp nokkurra þingmanna undir forystu hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar um dagpeninga eða fæðisgreiðslur og það hefur verið lagt fram á þinginu aftur. Nú þegar allt er í hnút, efnahagsleg áhrif á þjóðarbúið eru mikil og enn meiri og alvarlegri á líf og lífsviðurværi fjölda manns vítt og breitt um landið, fyrirtæki og sveitarfélög, þá segir hæstv. forsætisráðherra að það komi ekki til greina, ef marka má yfirlýsingar í umræðuþáttum helgarinnar.

Því spyr ég: Hvað hefur breyst? Er þetta byggðastefna nýrrar ríkisstjórnar í hnotskurn? Fullkomið afskiptaleysi af mikilvægustu og oft einu atvinnugrein heilla byggðarlaga?