146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[15:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Skýrslan um eignir Íslendingar á aflandssvæðum er athyglisverð enda hefur hún orðið til þess að miklar umræður hafa spunnist víða í samfélaginu um skattaskjól, um notkun þeirra, um aðferðir sem ríkir Íslendingar hafa notað sumir hverjir til þess að skjóta eignum sínum í skjól fyrir skattinum. Á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og í fréttaskýringaþáttum hafa menn farið yfir söguna, dregið fram nauðsyn þess að koma í veg fyrir undanskotin og skattsvikin, hvaða aðgerðir virki til að vinna gegn þeim og hverjir það eru helst sem stunda slík svik við samfélagið. Slíkar umræður í aðdraganda kosninga hefðu augljóslega dregið athyglina enn frekar að Panama-skjölunum og ástæðuna fyrir því að kosið var fyrr en áætlað var. En hæstv. forsætisráðherra ákvað að slá birtingunni á frest fram yfir kosningar.

Önnur skýrsla sem einnig var tilbúin fyrir kosningar er skýrslan um stóra loforðið sem varð til þess að ríkisstjórnarflokkarnir þáverandi fengu fylgi meiri hluta kjósenda í kosningum 2013. Í þeirri skýrslu var í fyrsta sinn greint frá því hvernig leiðréttingin svokallaða, 72,2 milljarðar kr. sem greiddir voru úr ríkissjóði, skiptist á milli eigna- og tekjuhópa á Íslandi. Hæstv. forsætisráðherra ákvað að halda henni líka innan veggja ráðuneytisins meðan á kosningabaráttu stóð. Í þeirri skýrslu kom m.a. fram að sá helmingur þjóðarinnar sem átti mestar eignir fékk 72% alls þess fjár sem greitt var út og 10% tekjuhæstu Íslendinganna fékk um þriðjung, eða 22 milljarða kr. Skýrslan hefði augljóslega kallað fram miklar umræður í aðdraganda kosninga og dregið athyglina að framkvæmdinni, að óréttlæti hennar, að þróun húsnæðisverðs og stöðu þeirra sem ekkert fengu, leigjenda og ungs fólks, svo dæmi sé tekið.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra beint að því, sem margir velta fyrir sér, hvort hann hafi dregið að birta þessar skýrslur, aðra hvora eða báðar, vegna þess að þær hefðu haft slæm áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins í kosningunum. Ef það var ekki ástæðan, hver var hún þá?