146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

dráttur á birtingu tveggja skýrslna.

[15:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Skýrslurnar tvær voru um afdrifarík mál fyrir þáverandi ríkisstjórn. Þær voru um tvö helstu deilumál kjörtímabilsins. Í skýrslunum er að finna upplýsingar sem varða almenning og skiptu augljóslega miklu máli í aðdraganda síðustu kosninga. Í skýrslunni um skattsvik ríkra Íslendinga er að finna staðfestingu á því að aflandsstarfsemi þeirra var ekki einskorðuð við eina lögfræðiskrifstofu og var mun meiri en í nágrannalöndum okkar. Dregið var skýrt fram hvernig ríkisstjórnir undir forustu Sjálfstæðisflokksins dró það í aðdraganda hrunsins að setja reglur til að torvelda flutning á peningum í skattaskjól. Og að halda því fram eins og gert hefur verið að það hafi verið gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ræða skuldaniðurfellingu í aðdraganda kosninga er eins og hver annar brandari. Kannanir sýndu líka að aðeins fjórðungur þjóðarinnar var jákvæður gagnvart því og ánægður með þær aðgerðir.

Ég vil spyrja hvað það er sem fær hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) til að halda að þær efnislegu umræður um skýrslurnar sem farið hafa fram hefðu ekki farið fram ef skýrslurnar hefðu komið fram fyrir kosningar og að þær efnislegu umræður og fréttaskýringarþættir (Forseti hringir.) hefðu engu máli skipt.