146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[15:58]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að fitja upp á þessari ágætu umræðu. Það er alltaf línudans hvernig fjármálastefnan er sett fram. Að því sögðu vil ég segja að mér finnst það mjög skynsamlegt og ábyrgt að hafa það að markmiði að heildarútgjöld hins opinbera fari ekki yfir 41,5% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu. Varðandi aðkomu smærri aðila að fjárlagavinnunni, sem var eitt af þeim atriðum sem málshefjandi lagði upp með, verð ég að segja að ég hef verulegar áhyggjur af þeim þætti. Ég hef áhyggjur af því að ný lög um opinber fjármál, sem vinnan byggir öll á, hafi það m.a. í för með sér að valdið færist frá Alþingi inn í ráðuneytin. Nýlegt dæmi er vinna fjárlaganefndar Alþingis við fjárlög fyrir árið 2017. Þá var ákveðið að taka fram að fjárframlög til Vegagerðar ættu m.a. að fara til umbóta á Reykjavegi í Bláskógabyggð. Þegar betur er að gáð fáum við þingmenn þær upplýsingar að Reykjavegur sé ekki á áætlun Vegagerðarinnar þrátt fyrir tilmæli fjárlaganefndar og því borið við að innanríkisráðuneytið hafi tekið þá ákvörðun.

Þá spyr ég, og ég vona að hv. fulltrúi ríkisstjórnarinnar geti svarað því: Til hvers erum við þingmenn að eyða tíma í fjárlaganefndarvinnu ef ekkert eða lítið mark er tekið á okkur og tilmælum okkar þegar fjármunum er úthlutað til verkefna?

Gott og vel, hér nefndu hv. þingmenn Haraldur Benediktsson og Björn Leví Gunnarsson að eftirlitshlutverk samkvæmt nýju lögunum væri okkar aðalhlutverk, ólíkt því sem áður var. Eigum við þá ekki bara að sleppa því að vera að fjalla um einstök verkefni ef svo er?

Að því sögðu hef ég verulegar áhyggjur af að það sama muni gilda um smærri aðila og aðkomu þeirra að fjárlagavinnunni. Kostir nýrrar lagaumgjarðar eru vissulega meiri agi og fyrirsjáanleiki í ríkisfjármálum og við þurfum svo sannarlega á því að halda, en ég óttast að það verði á kostnað þingræðisins og gegnsæis.