146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[16:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Lögin um opinber fjármál snúast um ábyrga stjórn og framtíðarsýn, ábyrga stjórn ríkisfjármála, að við reynum að horfa svolítið fram í tímann sem við Íslendingar erum ekki vön að gera. Kannski þurfum við að venja okkur við þá hugmynd, ekki síður en breytingarnar sem lögin fela í sér. Gildin sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi sem eiga að þræða sig í gegnum fjármálastefnuna, fjármálaáætlunina og síðan fjárlögin sjálf eru afar mikilvæg.

Lögin um opinber fjármál kalla eftir mikilli breytingu, hvort sem er hjá ráðuneytunum eða okkur í þinginu. Hlutverkið er breytt og það má búast við einhverjum hnökrum þegar við stígum okkar fyrstu skref og ég skora á hæstv. ráðherra að standa vel í fæturna þegar úrtöluraddirnar byrja að koma, þegar menn fara að segja: Þetta er ómögulegt, við verðum að fara aftur í gamla farið, þetta gengur ekki.

Við þurfum að komast yfir hjallann og horfa á markmiðið. Hvert er það? Jú, betri stjórn á ríkisfjármálum, faglegri umræða, faglegri vinna og ríkara eftirlitshlutverk þingsins. Fjárlaganefnd þarf líka að venja sig við aukið hlutverk, eftirlitshlutverkið.

Hér var rætt um smærri aðila. Einu sinni höfðu þeir sumir hverjir góðan aðgang að fjárlaganefnd og þingmönnum. Þeir eru óánægðir með breytinguna, óánægðastir þeir sem höfðu greiðan aðgang að þingmönnum. Það eru ýmsar gildrur sem við megum ekki (Forseti hringir.) falla í aftur en við verðum hins vegar að finna þessu góðan búning þannig að smærri aðilarnir séu ekki skildir út undan. En við eigum að koma því fyrir í faglegu ferli.