146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[16:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Hún hefur verið mjög gagnleg. Ég tek undir að stefnan snýr fyrst og fremst að því að vera sýnileg sem hagstjórnartæki. Mér finnst hins vegar mjög nauðsynlegt að við getum mátað stefnuna við fyrirhugaða áætlun. Stefnan er vissulega til lengri tíma og áætlun er svo innan hvers árs en til að hafa yfirsýn yfir hvernig þetta mátast saman finnst mér líða of langur tími. Mér finnst við líka hafa of lítinn tíma til að fjalla um málið. Sú stefnumörkun sem er lögð fram með þessu plaggi er stærsta mál hverrar ríkisstjórnar á hverjum tíma. Hún tekur á meginstærðum á aðhaldsstigi eins og hæstv. ráðherra sagði en það breytir því ekki að ég hef enn þá skoðun að þær þurfi að mælast nær hvor annarri þegar við ræðum fjármálin.

Varðandi verga landsframleiðslu og það að fólk geti almennt lesið í þetta verð ég að segja að það hefur loðað við frá því að ég kom fyrst inn á þing 2004 að þingsalurinn tæmdist alltaf þegar farið var að tala um fjárlög eða fjármál. Það loðir enn við og núna þegar við ætlum að fara að sýna aukinn aga og aðhald í fjármálum er mikilvægt að sem flestir geti skilið um hvað málið snýst. Til þess þurfum við líka tölur. Ég held að við getum sett þær fram án þess að það sé villandi með því að taka fram með hvaða hætti við ákveðum að gera þær samanburðarhæfar milli ára.

Vissulega hafa þingið og nefndin mikilvægt eftirlitshlutverk og þá þarf hugarfarsbreytingu mjög víða. Ég er sammála því. Ég hef hins vegar áhyggjur af smærri aðilunum og við verðum eiginlega að láta taka það út því að landsbyggðin segir mjög víða þar sem ég kem, og ekki bara í mínu kjördæmi, að hún komi ekki vel út í pottaúthlutunum sem nú hafa verið auknar í ráðuneytunum. (Forseti hringir.) Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, við hefðum þurft miklu rýmri tíma og hefðum eiginlega þurft þrjár umræður í röð til að ná verulega utan um málið.