146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framsal íslenskra fanga.

73. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um framsal íslenskra fanga erlendis til afplánunar á Íslandi. Ég held að við getum sagt að nánast á hverju ári lesum við fréttir af ógæfu íslenskra ungmenna sem verða uppvís að glæpum í fjarlægum löndum, ekki hvað síst tengt fíkniefnasmygli. Aðstæður í fangelsum í þeim löndum eru oft skelfilegar, alvarleg mannréttindabrot daglegt brauð í þessum fangelsum sem eru yfirfull og beinlínis lífshættuleg. Nýlega fjallaði stórblaðið The Guardian um hræðilegar aðstæður í brasilískum fangelsum þar sem átök milli gengja innan fangelsismúranna hefðu ítrekað leitt til hryllilegra fjöldamorða. Þetta eru aðstæður sem við hér á Íslandi getum engan veginn ímyndað okkur eða náð utan um.

Ýmsir gætu kannski sagt að þeir sem fremja glæp eigi að taka út sína refsingu, en ég vona að hæstv. ráðherra taki undir með mér að mjög mikilvægt sé að huga að mannréttindum allra þegna íslenska ríkisins, líka þeirra sem gera mistök og brjóta lög.

Það virðist líka vera algengt að afplánunarsamningar liggja ekki fyrir gagnvart þeim löndum þar sem aðstæður eru hvað verstar og þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Það hefur gilt t.d. um Brasilíu.

Í fyrirspurn um framsals- og fangaflutningasamninga til fyrrverandi utanríkisráðherra frá hæstv. fyrrverandi þingmanni, Össuri Skarphéðinssyni, í fyrra kom fram að heimilt er, að vissum lagaskilyrðum uppfylltum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, að fullnægja svokallaðri viðurlagaákvörðun frá erlendum dómstól á Íslandi þrátt fyrir að afplánunarsamningur sé ekki fyrir hendi. Bæði ríkin þurfi hins vegar að samþykkja og ákvörðun um beitingu þeirrar lagaheimildir væri í höndum þess ráðherra sem fer með flutning dæmdra manna samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands.

Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort unnið sé að því að koma á framsali íslenskra fanga erlendis til afplánunar á Íslandi án þess að fyrir liggi sérstakur framsals- eða fangaflutningasamningur við viðkomandi land. Og hvort ráðherrann hafi mótað sér stefnu eða sýn á framsal íslenskra fanga erlendis til afplánunar á Íslandi þó ekki liggi fyrir sérstakur framsals- eða fangaflutningasamningur við viðkomandi land.