146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framsal íslenskra fanga.

73. mál
[16:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt eins og fyrirspyrjandi kom inn á að á þessu sviði eru í gildi lög nr. 56/1993, um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, en með þeim lögum var uppfylltur sá alþjóðasamningur sem Ísland er aðili að, þ.e. samningi Evrópuráðsins um flutning fanga frá árinu 1983, og síðari samningsviðauka við hann, sem og samningi Evrópuráðsins um alþjóðlegt gildi refsidóma sem er frá árinu 1970.

Rétt er að halda því til haga að aðilar að þessum samningi eru 64 ríki. Og það eru fjölmörg ríki utan Evrópu, þar á meðal ákveðin ríki Suður-Ameríku sem eru aðilar að þessum samningum, ekki þó Brasilía, sem hér er sérstaklega nefnd í fyrirspurninni. Þetta eru sem sagt samningar sem eru grundvöllur að flutningi erlendra refsidóma á milli fjölmargra ríkja, bæði innan Evrópu og utan.

Þess utan hefur Ísland aldrei gert tvíhliða samninga um fullnustu refsidóma við erlent ríki heldur byggt á þessum alþjóðlegu samningum og þeim lagaheimildum sem er að finna í íslenskum lögum í þeim efnum. Það er rétt einmitt að árétta að í 3. gr. laganna er heimilt að ákveða þegar sérstakar ástæður mæla með því að fullnusta viðurlagaákvörðun hér á landi sem íslenskur ríkisborgari eða maður búsettur hér á landi hefur hlotið samkvæmt dómi eða annarri ákvörðun dómstóls í öðru ríki. Það er rétt að nefna að slíkur flutningur getur þó ekki orðið nema með samþykki beggja ríkja og að sjálfsögðu með samþykki fangans sem um ræðir.

Tvíhliða samningur við annað ríki um flutning á fullnustu refsidóma verður ekki gerður án samráðs við dómsmálaráðuneytið sem fer með málefni fanga og flutning dæmdra manna. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins hefur ekki verið unnið að gerð tvíhliða samnings við Brasilíu eða nokkurt annað ríki um flutning á fullnustu refsidóma.

Innanríkisráðuneytinu er kunnugt um að fulltrúar sendiráðs Íslands í Washington hafi átt samskipti við fulltrúa sendiráðs Brasilíu í Washington um leyfi til þess að greiða fyrir flutningi á fullnustu refsidóma sem kveðnir hafa verið sérstaklega upp í Brasilíu yfir íslenskum ríkisborgurum.

Rétt er að nefna að önnur Norðurlönd hafa ekki gert fangaflutningasamning við Brasilíu og hyggjast ekki gera slíkan samning í bráð. Norðmenn hafa þó samið um einstaka fanga í einstökum málum.

Að svo stöddu tel ég farsælla að beita þeirri sérstöku lagaheimild í 3. gr. sem ég reifaði hér áðan, þ.e. þegar sérstakar ástæður mæla með því, t.d. mannúðarsjónarmið sérstök, einkum með vísan kannski til ungs aldurs hins íslenska ríkisborgara, þá tel ég farsælla að nota þá lagaheimild til að leita eftir möguleikum á flutningi fanga til Íslands. Slíkur flutningur á fullnustu erlendra refsidóma getur þó ekki farið fram nema bæði ríkin samþykki það.

Hins vegar, af því að spurt var um það hvort einhver stefna hafi verið sérstaklega mörkuð í þessum efnum, þá hefur það ekki verið gert með formlegum hætti þótt málið hafi verið skoðað af og til, bæði í utanríkisráðuneytinu og í dómsmálaráðuneytinu eins og þá hét, og í innanríkisráðuneytinu líka. Það eru auðvitað margvísleg sjónarmið sem þarf að hafa í huga. Tvíhliða samningar, þeim er auðvitað ætlað að vera tvíhliða. En menn hafa metið það svo að ekki séu kannski miklar líkur á því að t.d. brasilískir fangar hér á landi myndu óska eftir því að afplána dóma í Brasilíu og ekki er endilega víst að ríki vilji taka við föngunum. Þetta er eitt sjónarmið sem þarf að hafa í huga og með hliðsjón af möguleikum og svigrúmi hins íslenska refsivörslukerfis að þjónusta bæði erlenda ríkisborgara og íslenska ríkisborgara sem hafa brotið af sér erlendis og eru kannski sumir með víðtæk tengsl við alþjóðlega glæpastarfsemi sem hið íslenska refsivörslukerfi hefur kannski ekki mikla reynslu af. En það er auðvitað sjálfsagt að skoða þetta.

Ég tel hins vegar að svo stöddu að 3. gr. laganna veiti fullt svigrúm til þess að grípa inn í einstök (Forseti hringir.) tilvik með tilliti til mannúðarsjónarmiða og sérstaklega ef um er að ræða unga brotamenn.