146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framsal íslenskra fanga.

73. mál
[16:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umræðuefni. Mér finnst mikilvægt, eins og hv. þingmanni, að hugsa út fyrir rammann og að við einbeitum okkur sérstaklega að löndum þar sem hætta er á að grundvallarmannréttindi íslenskra ríkisborgara séu fótumtroðin. Ég vil því beina athugasemd minni að hæstv. dómsmálaráðherra, hvort hún sé meðvituð um hversu margir fangar eru í fangelsum landa þar sem ekki liggur fyrir framsalssamningur og hvernig málum þeirra er háttað. Eins er ég forvitin um hvernig samstarfi dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins er háttað í þessum efnum. Eru þau með einhvers konar vinnuteymi? Er fyrirhugað eitthvert sérstakt samstarf til að tryggja að þeir fangar sem eru í löndum þar sem ekki liggja fyrir samningar njóti þar alla vega aðstoðar utanríkisráðuneytisins og mögulega líka samvinnu dómsmálaráðuneytisins um að koma þeim heim?