146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framsal íslenskra fanga.

73. mál
[16:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er gott samstarf, að sjálfsögðu, á milli utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins í þessum málum. Ég hef ekki tölur yfir það hversu margir íslenskir ríkisborgarar sitja t.d. í dag í fangelsum í löndum skulum við kalla sem ekki eru aðilar að nefndum Evrópuráðssamningi. En fyrir liggur að það eru líklega eitt til fimm mál á ári sem varða heimflutning fanga frá löndum sem eiga aðild að Evrópuráðssamningnum. Svona í grófum dráttum. Það þarf auðvitað ekki endilega að vera að íslenskum stjórnvöldum berist einhverjar upplýsingar um Íslendinga í fangelsum erlendis. Það er því kannski undir hælinn lagt hvort það gerist. En þegar það gerist er það yfirleitt einmitt ósk um einhverja aðstoð vegna aðbúnaðar í viðkomandi ríki, aðbúnaðar í fangelsi viðkomandi ríkja.

Það má líka geta þess að þau mál sem hafa komið upp og varða t.d. Brasilíu, þá hafa menn náð nokkrum árangri í samskiptum við fangelsismálayfirvöld í því ríki. Þótt það hafi kannski ekki leitt til framsals fanganna er hægt að beita sér með ýmsum öðrum hætti til að tryggja að íslenskur ríkisborgari njóti mannréttinda og viðeigandi aðbúnaðar í fangelsi, hvort sem er í Brasilíu eða annars staðar.

Það er einmitt það sem við þurfum að fylgjast með. Við bregðumst auðvitað við öllum óskum og fyrirspurnum sem að þessu lúta og munum gera áfram.

Ég þakka fyrir mjög ánægjulegar umræður um þetta. Án efa verða þessi mál til skoðunar, að minnsta kosti í öllu falli í dómsmálaráðuneytinu svo ég svari nú bara fyrir það en alveg örugglega líka í utanríkisráðuneytinu eftir því sem tilefni gefur til.