146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið liggur fyrir beiðni um skýrslu um áhrif af verkfalli sjómanna. Útsvarstekjur sveitarfélaga dragast saman, flutningsrekstur finnur fyrir miklum þrengingum í verkefnastöðu, minni fiskvinnslur án útgerðar eru hráefnislausar. Fiskvinnslufólk er sett á atvinnuleysisbætur vegna hráefnisskorts og ferskur fiskútflutningur er í lágmarki.

Langtímasamningar útgerðarinnar eru að einhverju leyti í húfi en í aflamarkskerfinu eins og það er uppsett í dag er í raun enginn hvati fyrir útgerðina til að semja þrátt fyrir allt ofangreint. Útgerðarmenn geta gengið að því vísu að þegar verkfalli lýkur er kvótinn eftir. Í raun snýst þetta bara um það að sækja meira magn á styttri tíma.

SFS rýfur svo fjölmiðlabann og samhliða krefur Guðmundur í Brimi stjórnvöld um aðgerðir hið snarasta með greinaskrifum sínum. Ég hef því hugmynd sem ég varpa fram í ljósi stöðunnar. Ég legg til að veiðar á bátum undir 12 metrum og 15 tonnum verði gefnar frjálsar fram að lokum verkfalls. Ef raunverulegar áhyggjur stjórnvalda og þingheims eru þær að minni fyrirtæki og stoðgreinar liggi að veði í deilunni getum við með þessum hætti liðkað til, fært landsbyggðinni örlitla björg í bú. Jafnframt held ég að samninganefnd útgerðarinnar semji á mettíma, eða eins löngum tíma og tekur að boða og setja fund. Með þeirri aðferð stígum við ekki á samningsrétt aðila deilunnar. Þarna höfum við lausn á hnútnum sem færir ekki útgerðarmönnum uppfylltar kröfur þeirra á silfurfati. Ef fiskvinnslurnar fá hráefni er síður hægt að beita starfsfólki fiskvinnslustöðvanna sem vopni gegn sjómönnum.


Efnisorð er vísa í ræðuna