146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að segja að mér finnst ótrúlega furðulegt að búið sé að skipa eða til standi að skipa starfshóp frá hæstv. fjármálaráðherra um hvernig má taka á svartri atvinnustarfsemi með því að banna reiðufé. Er virkilega ekkert betra að gera hjá hæstv. fjármálaráðherra en að reyna að finna leiðir sem skerða verulega persónufrelsi og friðhelgi einkalífs og alveg ljóst að munu ekki taka á þeim málum er koma að skattaskjólum? En þar í raun og veru flæða mestu peningar út úr landinu í samfélaginu. Þar erum við að tala um verulega háar fjárhæðir. Væri ekki nær að hæstv. fjármálaráðherra myndi einbeita sér að því að reyna að hala eitthvað af þeim peningum til landsins?

Mig langar líka að nefna eitt í ljósi þeirra umræðna sem hafa átt sér stað hér undanfarið þegar reynt hefur verið að spyrja hæstv. forsætisráðherra, fyrrverandi fjármálaráðherra, um skýrsluna um skattaskjólin sem var geymd fram yfir kosningar. Mig langar í ljósi þess að benda þingmönnum á grein, ef þeir hafa ekki nú þegar lesið hana, eftir fyrrverandi skattstjóra, Indriða Þorláksson, um af hverju skattaskjól eru til og hvernig þau eru notuð. Þessi grein var birt í Stundinni nýverið og er mjög gagnleg til yfirlestrar, sérstaklega fyrir þá þingmenn sem í alvörunni vilja taka á þessum málum og væri mjög gagnlegt t.d. að ræða um við núverandi forsætisráðherra. Því að þrátt fyrir allt var nafnið hans í Panama-skjölunum. Þrátt fyrir allt var hæstv. þáverandi fjármálaráðherra með reikning í skattaskjóli hvort sem hann vissi af því eða ekki.


Efnisorð er vísa í ræðuna