146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Mig langar að gera samgöngumál að umtalsefni hér og þá sérstaklega þau sem snúa að flugsamgöngum. Það hefur komið fram í þeim hluta þingmálaskrár sem snýr að ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, að lagt verði fram frumvarp til laga um Flugþróunarsjóð sem ætlað er að styðja við reglulegt millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða.

Mér líst vel á þetta frumvarp. Það sem er hins vegar hvergi minnst á í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og ekki heldur í þeim hluta þingmálaskrárinnar sem snýr að samgönguráðuneytinu er innanlandsflugið. Í fréttum í gær, svo ég snúi mér aftur að millilandafluginu, var sagt frá því að meðalverð á flugi frá Keflavík er 41.230 kr. Þegar ég fer heim til höfuðborgar hins bjarta norðurs, eins og Steindór Steindórsson frá Hlöðum kallaði Akureyri í riti sínu, kostar það að jafnaði 45–50 þús kr. Ef fjölskylda mín byggi í Stokkhólmi myndi það kosta mig 26 þús. kr. að fara þangað um helgar. Það væri ansi magnað ef fjölskyldan mín byggi í Stokkhólmi. Stokkhólmur er merkileg borg.

Ég held að það væri magnað ef ráðherra samgöngumála myndi velta fyrir sér hvernig hann gæti farið að því að styrkja innanlandsflug svo að ég og aðrir (Forseti hringir.) þurfum ekki að borga tvöfalt Stokkhólmsfargjald norður til Akureyrar.


Efnisorð er vísa í ræðuna