146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil minnast þess að í dag hefði Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins orðið 100 ára hefði hann lifað. Hann fæddist þann 7. febrúar 1917 en lést 18. ágúst árið 2004 tæplega 88 ára gamall. Maðurinn er félagsvera og sá magnaði hæfileiki að geta unnið saman milli og þvert á kynslóðir hefur skapað honum þá stöðu sem hann er í í dag. Flest okkar leggja hins vegar örlítið af mörkum og svo hverfum við á braut og gleymumst mjög fljótt. Svo eru aðrir sem rísa upp úr mannhafinu og leggja samfélaginu lið og gera það fallegra og bjartara. Gylfi var einn af þeim mönnum.

Gylfi hafði mjög mikil áhrif á flest það sem hann fjallaði um og allt það fólk sem hann hitti. Hann varð snemma baráttumaður fyrir jöfnuði og félagslegum umbótum og sagði að ástæðan fyrir því væri að honum hefði runnið til rifja félagslegt óréttlæti og ómöguleiki fólks á krepputímanum. Gylfi var þó líka mjög meðvitaður um að maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og við þurfum líka listir og menningu. Hann var líka sjálfur ágætispíanóleikari og tónskáld.

Gylfi var mikilsvirtur skólamaður, fræðimaður, þingmaður í 36 ár og ráðherra í 15 ár og sem slíkur beitti hann sér fyrir frjálsum viðskiptum, opnari samskiptum við umheiminn og síðar baráttu fyrir inngöngu Íslands í EFTA.

Á sviði menntamála hafði hann síðan mikil áhrif til eflingar allra skólastiga og beitti sér fyrir lögum um tónlistarskóla. Sá gríðarlegi kraftur og gæði sem eru í íslensku tónlistarlífi í dag er eflaust Gylfa mikið að þakka.

Fyrir hönd Jafnaðarmannaflokks Íslands, Samfylkingarinnar, þá þakka ég forsjóninni fyrir að Gylfa hafi verið falið það merkilega verkefni að gera lífið fallegra, betra og innihaldsríkara.


Efnisorð er vísa í ræðuna