146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Frú forseti. Ég er að velta fyrir mér fréttamati fjölmiðla sem oft er svolítið bjagað í mínum huga. Í þætti í ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var fjallað um brennivínsfrumvarpið í 17 mínútur en verkfall sjómanna í tvær eða þrjár. Það fannst mér einkennilegt miðað við mikilvægi málsins, atvinnugreinar sem veltir yfir 300 milljörðum á ári og heldur lífinu í landsbyggðinni. Það fékk þrjár mínútur á móti brennivíninu. Það segir svolítið um matið.

Ég hef mjög miklar áhyggjur af verkfalli sjómanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sjómenn, útgerðarmenn og stjórnvöld leggi núna spilin á borðið og ljúki þessari deilu sem fyrst. Hún hefur þegar tekið allt of mikinn toll, ekki bara hjá samfélaginu í heild heldur líka hjá fiskverkunarfólkinu, þjónustuaðilunum og öllum þeim sem vinna við og að sjávarútvegi.

Þess vegna er mikilvægt að við hér inni höldum áfram að leggja ábyrgð á þá sem bera ábyrgð á þessum samningum og höldum frið um málið að öðru leyti en ég hef heyrt af fésbókarsíðu sem Píratar opnuðu þar sem farið er með miklum ófriði í þessu máli. Mér finnst óeðlilegt (Gripið fram í.) að við stöndum (Gripið fram í.) þannig að málum. Ég heyrði líka (Gripið fram í.) í útvarpinu í morgun hv. þm. Smára McCarthy sem er Vestmannaeyingur eins og ég segja að eina leiðin til að setja lög á deiluna væri að taka sérstaklega til greina hagsmuni annars aðilans. Það er líka mjög slæmt ef við í þessu húsi sendum þau skilaboð að við skipum okkur í lið í þessari deilu. Ég held að það sé mikilvægast fyrir okkur að við stöndum vörð (Forseti hringir.) um frið og að deilan verði leyst sem fyrst.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna