146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnum í gær var forsætisráðherra spurður af hverju hann hefði ekki skilað skýrslu um aflandsfélög til almennings fyrir kosningar. Svörin voru vægast sagt léleg. Forsætisráðherra sagði að skýrslunni hefði verið skilað til Alþingis. Skýrslan kom að lokum til Alþingis, já — að lokum.

Hvenær er að lokum orðið of seint, virðulegi forseti? Er það ekki orðið of seint þegar kosningar eru búnar? Er það ekki orðið of seint þegar allir vita að skýrslan er tilbúin en samt er ekki búið að gefa hana út? Mér líður eins og ég sé í teygjanlega hlutanum á strax þegar ég er að tala um þetta mál. Óþolandi. Skýrslan var tilbúin til birtingar fyrir kosningar, um það er ekkert deilt. Skýrslan innihélt upplýsingar fyrir málefnalega umræðu samkvæmt orðum forsætisráðherra í viðtali við RÚV. Upplýsingar sem skýrslan inniheldur varða almannahag og ráðherra ber að hafa frumkvæði — frumkvæði — að birtingu slíkra gagna.

Ráðherra misbeitti valdi sínu og neitaði kjósendum um aðgengi að upplýsingum til að taka upplýsta ákvörðun við ráðstöfun atkvæðis síns í nýliðnum kosningum. Kjósendur fengu ekki að taka afstöðu. Kjósendur voru sviptir rétti sínum til upplýstrar ákvarðanatöku. Það er tilefni til vantrausts.

Þess vegna er svo mikilvægt að ráðherra svari fyrir þennan feluleik sinn. Gæti ráðherra í fullri hreinskilni sagt að hann myndi ekki krefjast nákvæmlega þess sama ef hann væri í þeirri stöðu sem ég er í núna? Myndi hann ekki sjálfur krefjast þess að fólk færi að skila lyklinum?

Í því skyni að efla traust á stjórnsýslunni hefur ríkisstjórnin samþykkt siðareglur ráðherra. Er nóg að samþykkja slíkar siðareglur og ætlast til þess að traust eflist eins og hendi væri veifað? Traust eflist ef fólk axlar ábyrgð og mistök hafa afleiðingar. Hvað gerist annars næst? Verða engar afleiðingar næst? Verða aldrei neinar afleiðingar af því að fela upplýsingar sem varða almannahag? Af hverju ættu að verða afleiðingar seinna ef það eru ekki afleiðingar núna? Þetta er málið sem þingið þarf að taka afstöðu til og hver og einn þingmaður þarf að spyrja sjálfan sig: Mun svona hegðun ráðherra gagnvart Alþingi aldrei hafa afleiðingar? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna