146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:30]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp á öðrum nótum, á persónulegan nótum, til að tala um þær framfarir sem ég hef upplifað í þjónustu heilsugæslunnar þegar kemur að þeirri heilsugæslu sem ég hef haft samskipti við og átt í þverfaglegu samstarfi við í Efra-Breiðholti þar sem þjóðfélagið hefur breyst mikið. Það hefur krafist öðruvísi samstarfs og öðruvísi þjónustu við íbúa. Ég hef átt í samstarfi við heilsugæsluna í Efra-Breiðholti sem tekið hefur mjög mikinn þátt í því forvarnastarfi sem við höfum þurft að sinna, t.d. með innleiðingu tannverndarverkefnis þar sem við fórum fram með fræðslu og rannsókn, tannburstun og eftirfylgni í samstarfi við heilsugæsluna.

Við fórum þá leið með heilsugæslunni að búa til samstarfs- og leyfisyfirlýsingu svo ég gæti talað við hjúkrunarfræðing og lækni um þá skjólstæðinga sem voru hjá mér í skólanum og fengu þjónustu þar. Tökum sem dæmi, ef barn slasast á leikskólanum hjá mér hef ég leyfi frá foreldrum og heilsugæslunni til þess að hringja fyrst í heilsugæsluna og búa heilsugæsluna undir komu barnsins. Foreldrar þess koma svo þangað frekar en á slysstaðinn.

Heilsugæslan hefur veitt mér upplýsingar og fræðslu hvað varðar öryggis- og heilsuvernd sem ég veiti í starfi mínu í skólanum gagnvart starfsmönnum og börnum. Ég hef svo aðstoðað heilsugæsluna, þegar t.d. tvítyngd börn koma í þroskaskoðun, vegna þekkingar minnar á málþroska tvítyngdra barna, sem heilsugæslan býr ekki yfir. Þessi samtöl og hið þverfaglega starf, sem er heildræn nálgun í heilsuvernd og hluti af þjónustustöðvum með mæðravernd og skólagæslu, hefur aukist. Ég er mjög þakklát fyrir það og bind miklar væntingar við sálfræðinga og komu þeirra í heilsugæsluna og jafnframt þau áhrif sem það mun hafa á forvarnir og hvernig það mun bæta nærsamfélagið.