146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér heilsugæsluna og vil ég þakka málshefjanda hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir tækifæri til að ræða hér þennan mikilvæga hluta af heilbrigðisþjónustu landsins.

Heilsugæslan á alla jafna að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga þar sem veitt er almenn lækning, hjúkrun, heilsuvernd, forvarnir og bráða- og slysamóttaka.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á síðustu misserum til að styrkja heilsugæsluna á landinu. Rekstrargrunnur heilsugæslunnar hefur verið styrktur. Sálfræðiþjónusta á heilsugæslunni hefur verið aukin og þarf að auka enn frekar. Hreyfiseðlar hafa verið innleiddir og framlög til heimahjúkrunar hafa verið aukin.

Nú um áramótin var innleitt nýtt greiðslulíkan að sænskri fyrirmynd á höfuðborgarsvæðinu. Allt það er til bóta og til þess fallið að bæta þjónustuna þar sem sjúklingurinn sjálfur og þarfir hans eru sett í fyrsta sæti. Það er það sem skiptir öllu máli. Í mínum huga miklu meira máli en hártoganir um rekstrarfyrirkomulagið; sjúklingurinn sjálfur í fyrsta sætið.

Þrátt fyrir þetta ganga nú undirskriftalistar í mínum heimabæ, Mosfellsbæ, þar sem íbúar mótmæla þjónustuskerðingu sem felst í því að sólarhringsvaktþjónusta hefur lagst af frá og með 1. febrúar sl., en læknar við stöðina hafa sinnt þeirri þjónustu undanfarna áratugi. Rök stjórnenda Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru þau að verið sé að samræma þjónustuna á svæðinu öllu. Þá muni Mosfellingum, eins og öðrum höfuðborgarbúum, standa til boða að nýta þjónustu Læknavaktarinnar á Smáratorgi utan dagvinnutíma og fram til miðnættis, en eftir það er þjónustan sem í boði er fyrir höfuðborgarsvæðið símaþjónusta hjúkrunarfræðinga og bráðamóttaka LSH. Ég hef fullan skilning á því óöryggi sem gripið hefur um sig meðal íbúa sveitarfélagsins sem óttast þessa þjónustuskerðingu.

Mér er spurn: Hefur farið fram heildstætt mat á því hvort þetta fyrirkomulag sé hagkvæmasta og besta leiðin til að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins þjónustu allan sólarhringinn? Eða kann að vera að með þessu sé verið að spara á einum stað en flytja kostnaðinn yfir á aðra, í þessu tilfelli Landspítalann?