146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

heilsugæslan í landinu.

[14:37]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Forseti. Ég velti fyrir mér hvort þessi umræða sé ekki bara óþörf. Ég leyfi mér að vitna í stefnuræðu forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar um að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið.“

Sem sagt, þetta voru bara eintóm hughrif. Nei, auðvitað ekki. Það er ekki eðlilegt að ég hafi í frammi flimt og flíruskap um jafn alvarlegt mál og heilsugæsla er í þessu landi.

Ég ólst upp við það að heilsugæsla væri í raun fyrst og fremst læknamóttaka. Það hefur orðið sú breyting á að smám saman hafa menn tekið upp þann háttinn að hafa þar samstarf ýmissa faghópa úr heilbrigðisþjónustu, hjúkrunarfræðinga og fleiri. Það sem mér finnst hins vegar vanta víða er að sjúkraþjálfarar komi meira inn í það samstarf, sálfræðingar, næringarfræðingar og læknar. Þetta snýst um jafnt aðgengi hvar sem er á landi. En aðgengi snýst ekki bara um biðtíma eftir viðtalstíma heldur líka um fjarlægðir og kostnað.

Ég kom inn á háar upphæðir sem fólk þarf að greiða fyrir innanlandsflug í framhaldi af því. Langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) hvort hann sjái fyrir sér að hægt verði að greiða niður í meiri mæli en nú þegar er gert þann (Forseti hringir.) mikla kostnað sem fólk þarf að leggja út til að sækja sér heilsugæslu af landsbyggðinni?