146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

um fundarstjórn.

[14:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir með félögum mínum sem hafa rætt áður um nauðsyn þess að hafa sanngjarnara og betra skipulag á þingstörfum. Ég geri mér grein fyrir því að hefðin hefur verið sú að maður fær að vita dagskrá morgundagsins kannski á miðnætti kvöldið áður. En ég hef mikla trú á núverandi forseta og skora á forseta og forsætisnefnd að finna leið til þess að næsta vika liggi alltaf fyrir á föstudögum, öll dagskráin, líka sérstakar umræður og utandagskrárumræður. Ég er alveg sannfærð um að allir þingmenn vilja vera vel undirbúnir. Það er mjög óþægilegt að hafa engan tíma til að undirbúa sig, því að við erum mjög oft á nefndarfundum á morgnana. Það myndi bæta ásýnd Alþingis töluvert ef við fengjum að vita hver dagskráin verður nokkrum dögum áður.