146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Markmið frumvarpsins er að lögfesta reglur um eftirlit með fjármálasamsteypum til að tryggja betur trúverðugleika og stöðugleika fjármálamarkaðar. Eftirlit með fjármálasamsteypum felst aðallega í eftirliti með fjárhagsstöðu þeirra. Ákvæði frumvarpsins eru viðbót við ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, og er ætlað að ná yfir áhættu sem hlýst af viðamiklum og flóknum samsteypum og stuðla að skilvirku eftirliti með þeim.

Fjármálasamsteypa er samstæða þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni eða a.m.k. eitt af dótturfélögunum í samstæðunni er eftirlitsskyldur aðili. Þá þarf a.m.k. einn aðili að starfa á fjármálasviði og a.m.k. einn á vátryggingarsviði og samanlögð umsvif aðila á hvoru sviði um sig þurfa að teljast mikilvæg. Fjármálasamsteypur eru ekki starfandi hér á landi eins og er en það getur breyst og því er mikilvægt að til séu lögfestar reglur um viðbótareftirlit með þeim. Fjármálasamsteypur geta verið kerfislega mikilvægar og því til bóta að um þær sé markaður skýr rammi.

Frumvarpið byggir á tilskipun 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu sem eru hluti af samsteypu fjármálafyrirtækja, og tilskipun 2011/89/ESB sem breytti fyrri tilskipun.

Viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum felst í því að eftirlit er haft með gjaldþoli fjármálasamsteypunnar ásamt eftirliti með samþjöppun áhættu og viðskiptum innan samstæðunnar. Tryggja þarf að eftirlitið nái til allra félaga í fjármálasamsteypunni, óháð því hvar félögin hafa höfuðstöðvar. Í frumvarpinu eru því lagðar til reglur sem samræma eftirlit og ferli hjá þeim eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa eftirlit með félögum í samsteypunni ásamt því að settur er rammi um upplýsingaskipti milli eftirlitsstjórnvaldanna. Einnig eru ákveðin úrræði til að fá upplýsingarnar ef eitthvert eftirlitsstjórnvaldanna bregst ekki við beiðni um að afhenda þær.

Uppbygging frumvarpsins er á þá leið að í fyrsta lagi er skilgreining á því hvenær um fjármálasamsteypu er að ræða, í öðru lagi eru almenn ákvæði um eftirlit með fjármálasamsteypum og hvaða aðilar falli undir eftirlit frumvarpsins. Í þriðja lagi eru ákvæði um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Þau ákvæði eiga við þegar samsteypa starfar í fleiri en einu ríki og snúa að samstarfi eftirlitsstjórnvalda í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í fjórða lagi eru ákvæði um samskipti við ríki sem ekki eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem skipaður var fulltrúum frá ráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja og hafa því helstu hagsmunaaðilar komið að frumvarpsgerðinni. Helstu áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, eru að styrkja innviði fjármálakerfisins þar sem auknar kröfur verða gerðar til eftirlits með fjármálasamsteypum. Frumvarpið er til þess fallið að skapa traust á fjármálamarkaði og mun gera hann reiðubúinn ef fjármálasamsteypa hefur starfsemi á Íslandi. Önnur áhrif frumvarpsins eru að reglur um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum hér á landi verða samræmdar reglum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og öll samvinna og eftirlit á svæðinu verður því einfaldari og hagkvæmari.

Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.