146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:25]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta frumvarp til laga sé góðra gjalda vert. En ég verð samt að segja að vegna þess að það eru nú engar fjármálasamsteypur á Íslandi vil ég samt mælast til þess að ráðherrann hugi að því að það eru alls kyns þenslumerki á okkar eigin markaði. Nú er aftur farið að veita 95% lán þannig að ég hvet ráðherrann til þess að passa sig á því að vera ekki of upptekinn af því að innleiða tilskipanir og reglur og annað slíkt, sem við þurfum vissulega að gera, en huga líka að okkar innlenda kvika markaði þar sem hlutirnir gerast oft mjög hratt. Við þurfum að hafa alveg sérstakt eftirlit með honum. Ég vildi leggja það til málanna hér.

Það er annað sem mig langar að spyrja ráðherrann út í og vekur athygli mína. Það er að þegar verið er að meta áhrifin af frumvarpinu er sagt að frumvarpið geti haft áhrif til sveiflujöfnunar fyrir hagkerfið þar sem heimildir Fjármálaeftirlitsins til eftirlits með fjármálasamsteypum séu auknar og þannig sé hægt að bregðast við þenslu eða samdráttarmerkjum í hagkerfinu í gegnum fjármálamarkaðinn.

Ég velti fyrir mér: Er Fjármálaeftirlitið komið með ákveðnar heimildir? Eru fjármálaeftirlit erlendis jafnvel komin með heimildir til þess að bregðast við þenslu eða samdráttarmerkjum á fjármálamörkuðum annars staðar? Hver getur komið þarna inn í? Eru það einstök fjármálaeftirlit eða er það kannski sameiginlega fjármálaeftirlitið sem kemur þar inn í? Ég sé það ekki alveg þegar ég les frumvarpið, það kann að hafa farið fram hjá mér, en ég hjó eftir þessu.

Eins og við vitum er heilmikið sem við þurfum að innleiða og margt mjög gott sem kemur í gegnum EES-samninginn. En ég hvet hins vegar ráðherrann eindregið til þess að fylgjast mjög vel með því sem er að gerast á okkar eigin fjármálamarkaði, sérstaklega í ljósi hinna nýju upplýsinga sem við höfum fengið um aukna þenslu á fasteignamarkaði og hvað er að gerast varðandi það, verið er að lána ríflega til íbúðakaupa. Við þekkjum það öll frá því þegar slík lán voru veitt á sínum tíma að þegar lánveitingar aukast og peningamagn í umferð eykst, fer verðið mjög hratt upp. Ég held að það sé ekki það sem við þurfum akkúrat á að halda núna á fasteignamarkaði.