146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég efa það ekki að í þessari nefnd eins og mörgum öðrum á vegum hins opinbera sé hið hæfasta og mætasta fólk. Sama má t.d. segja um Hæstarétt sem þennan veturinn hefur eingöngu kallað til karla sem varadómendur, og það í ljósi þess að á síðasta ári beindu Sameinuðu þjóðirnar þeim tilmælum til Íslands að fjölga konum í Hæstarétti. Ég spyr því, af því að ráðherrann hefur lýst því að hún sé þvert gegn kynjakvótum, hvort hún myndi beita sér sérstaklega gegn þessum kynjakvóta sem virðist svo rækilega vera við lýði í Hæstarétti. Ég hef áhyggjur af því að það myndi smitast yfir á þetta nýja dómstig ef ekki væri stigið fast til jarðar.