146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað þannig að nefndinni er falið svolítið viðurhlutamikið hlutverk að fara yfir fræðilegan bakgrunn umsækjenda, það er nú aðallega það sem skiptir mestu máli. Ég er ekki að segja að það geti ekki komið til álita og geti ekki verið gagnlegt fyrir nefnd sem þessa að hafa fleiri en löglærða um borð, en ég bendi þá á að nefndin er m.a. skipuð af fulltrúum frá Alþingi eða einstaklingum sem Alþingi velur í nefndina. Það er þá sjálfsagt að Alþingi skoði það. Þetta er sjónarmið sem Alþingi getur mjög auðveldlega haft uppi við sitt val. En fleiri skipa í nefndina. Það er Hæstiréttur og það er Lögmannafélagið og ekki er óeðlilegt að þeir aðilar líti í sinn rann eftir einstaklingum í nefndina. Ég hvet hv. þingmann til þess að hafa uppi þetta sjónarmið þegar kemur til kasta Alþingis í þessum efnum.