146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég sæi fyrir mér að við myndum a.m.k. gera ríkari kröfur til þess að valnefndir fyrir dómarasæti yrðu skipaðar fólki með fjölbreyttari reynslu en einfaldlega lögfræðigráðu úr HÍ eða HR eða öðrum háskólum sem veita lögfræðigráður. Það þarf frekari þekkingu til og sérstaklega ef við erum með fimm manna hóp þá hlýtur að vera hægt að bæta inn einum eða tveimur sem eru ekki með lögfræðigráðu á kantinum einfaldlega vegna þess að við þurfum líka fólk sem hefur víðtæka reynslu úr samfélaginu, við þurfum líka fólk sem endurspeglar þann fjölbreytileika sem við höfum í samfélaginu. Verandi lögfræðingur sjálf ætla ég ekki að hallmæla þeirri stétt frekar en annarri. En ég lít ekki svo á að hún sé ein fær um að taka mikilsverðar ákvarðanir sem þessar og í raun og veru tel ég það óæskilegt fyrir lýðræðið í landinu og réttarvernd borgaranna að þeir sem allar ákvarðanir fá að taka í þessu landi séu aðallega lögfræðingar úr Háskóla Íslands, hvað sem um þá ágætu stétt má annars segja.

Það mætti a.m.k., eins og ég lagði til með kjararáð, setja einhvers konar skilyrði um hverjir væru skipaðir í svona mikilvæg ráð og nefndir og þær myndu endurspegla fjölbreytileika samfélagsins, þar á meðal eiga jafnréttissjónarmið auðvitað fullkomlega rétt á sér. Eins og við vitum gilda jafnréttislög í landinu. Þau fela í sér að við eigum að endurspegla það betur að konur eru u.þ.b. helmingur íbúa á þessu landi. Þetta er bara eitt af mörgum sjónarmiðum sem mætti líta til. Ég þakka andsvarið.