146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn vék í ræðu sinni að því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að efla skuli traust á dómstólum. Þetta er eitt af því sem ég get tekið heils hugar undir úr stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar þótt ekki sé allt mér að skapi í henni. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál síðustu ár og frá hruni. Það varð ekki bara efnahagshrun heldur varð líka hrun á trausti á ýmsum stofnunum samfélagsins. Við á Alþingi njótum trausts sem er svona í kringum pilsnerprósentuna, dómstólarnir eru með eitthvað aðeins meira. Mig langar aðeins að heyra frá þingmanninum þar sem hún er lögfræðimenntuð, ólíkt mér, og það væri þá kannski upptaktur að vinnu okkar innan allsherjar- og menntamálanefndar þegar málið kemur til kasta hennar, hvort hún sjái einhvern flöt á því að stilla þessu máli eitthvað öðruvísi upp þannig að það sinni þessu markmiði ríkisstjórnarinnar, að efla traust á dómstólum, betur en ella.