146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:09]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég gleðst yfir því að nú sé að koma til framkvæmda sú mikla réttarbót sem felst í Landsréttinum, áfrýjunardómstól þar sem allir eiga kost á alvöruendurskoðun sem verið hafa að reka mál. Það er hins vegar eitt atriði sem truflar mig aðeins í frumvarpinu, ekki það að ég eigi svefnlausar nætur yfir því, en þó nefni ég það að það stjórnvald sem dómnefndin er og hefur síðasta orðið, endanlegt vald yfir því hverjir eru skipaðir dómarar. Valdið sem ráðherrann á að hafa samkvæmt stjórnarskrá er tekið af honum í lögunum, það er svo sem ekkert nýtt, það var í lögunum, og er fært fólki sem hefur ekkert umboð til þess. Og það sem verra er, ráðherrann hefur ekkert um það að segja hverjir skipa nefndina heldur er öðrum falið sem eru alveg jafn umboðslausir að ákveða hverjir sitja í nefndinni.

Það vill svo til að ég sat sjálfur í þessari nefnd algjörlega umboðslaus og hafði það verk með höndum að ráða því, auðvitað með nokkrum öðrum, hverjir yrðu dómarar í þessu landi. Ég tel það ekki skynsamlegt, ekkert frekar en allar aðrar nefndir sem ég hef gagnrýnt hér á Alþingi í umræðum önnur mál þar sem búið er að færa vald til umboðslausra nefnda, stjórnvald, endanlegt vald á sviði stjórnsýslunnar, sem ráðherrann getur auðvitað ekki borið ábyrgð á ef hann hefur ekkert um það að segja, ekki einu sinni hverjir eru í þessum nefndum. Ákvæði stjórnarskrárinnar um að ráðherra beri ábyrgð á öllum stjórnarathöfnum er því orðið markleysa í mínum huga. Það getur ekki gengið upp með þessum hætti.

Ég verð hins vegar var við það í umræðum um þetta mál — ég heyrði auðvitað að ráðherra var með þetta allt á hreinu og nefndi þetta, en síðan fara hér ýmsir þingmenn að grauta öllu saman, eins og stundum gerist, og segja það sem virðist vera skoðun sumra, að hér eigi þessi nefnd og þá ráðherra líka að fara að jafnréttislögum og skipa jafn marga dómara af hvoru kyni. Í lögunum eins og þau eru er gert ráð fyrir því, hvort sem okkur líkar þessi nefnd eða ekki, að í hvert sinn sé skipaður sá hæfasti af umsækjendum. Það er pósitíft ákvæði. Það þýðir ekki að vísa í jafnréttislög um að það verði að vera jafn margar konur og karlar dómarar. Þá þurfum við að breyta ákvæðinu um það að sá hæfasti að mati hæfnisnefndar skuli hljóta embættið. Það verður ekki hvort tveggja gert þó að við getum kannski verið sammála um það almennt að konur og karlar séu alveg jafn hæf. Um það snýst málið ekki. Það snýst um þá umsækjendur sem um er að ræða.

Í dómstörfum í héraði er u.þ.b. jafnt hlutfall af körlum og konum. En þegar kemur að Hæstarétti eru fleiri karlar dómarar. Ég er nú ekki gamall maður, en það voru nú ekki margar konur útskrifaðar með lögfræðipróf þegar ég var í skólanum. Ef við gerðum ráð fyrir því að þeir sem hafi mesta reynsluna og uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögunum — það eru sett ýmis skilyrði í lögum um matið — séu hugsanlega enn þá fleiri karlar sem uppfylla þau að mestu leyti. Það kann að vera skýringin á því að það eru nú fleiri karlar í augnablikinu í Hæstarétti en konur, það væri nú eðlilegt að draga þá ályktun, frekar en þá að einhverjir karlar séu á móti konum og vilji ekki fá þær í Hæstarétt. Af hverju ættu þeir að vilja fá þær í héraðsdóm? Sú umræða er í mínum huga galin og hefur ekkert með jafnrétti að gera. Þar er bara verið að rugla umræðuna.

Vandamálið með skipun þessarar nefndar er að löggjöfin var gölluð. Þess vegna getur það gerst með þeim hætti að það halli á annað kynið. Í lögunum á sínum tíma var þessu fólki úti í bæ falið að skipa eina manneskju, m.a. Hæstarétti, Lögmannafélaginu, Alþingi og Dómarafélaginu frekar en Dómstólaráði, ég man ekki einu sinni hvort það var. Þá getur þessi eina manneskja ekki verið af báðum kynjum. Þá getur það auðvitað gerst. En þetta var bara pósitíft ákvæði í lögum og þannig verður það. Menn eiga þá bara að breyta lögunum en þusa um þetta.

Svo var líka umræða um að það væri mikilvægt, m.a. til að efla traust almennings á dómstólum, að einhverjir aðrir en lögfræðingar myndu nú meta hæfni dómaranna. Hvurslags rugl er það nú? Það er eins og að biðja mig um að meta hæfni heilaskurðlækna. Það verða auðvitað einhverjir sem hafa vit á að meta hæfnina að vera í slíkri nefnd. Að vísu hefur Alþingi alltaf kosið einhvern sem ekki er lögfræðingur, það hefur alltaf verið og það var alltaf einn sem ekki var lögfræðingur þegar ég var í nefndinni. Hvaða þýðingu haldið þið að sá hafi haft í matinu í raun? Auðvitað enga, það segir sig sjálft, þó að ágætis manneskja hafi verið og gat gert margt gott og lagt margt til málanna, ég segi það ekki. En í raun snýst þetta um mat.

Það sem ég hef hins vegar fundið að þessari nefnd og fann að líka þegar ég sat í henni sjálfur er að nefndin fer í hárfínt mat sem menn geta auðvitað túlkað sem geðþóttamat. Ég er þeirrar skoðunar að þegar ekki er mikill munur á milli manna sé valið ráðherrans. Þá er meiri möguleiki til að horfa til annarra sjónarmiða, hvort sem það er kynjasjónarmið eða bakgrunnssjónarmið o.s.frv. En nefndin gerði nefnilega ekki mikið af því, ekki alla vega á mínum árum, sem mér fannst aðfinnsluvert.

Auðvitað er stundum heilmikill munur á milli umsækjenda, ekki af því að annar er vitlausari en hinn, það getur verið munur á reynslu, hvað menn hafa lagt til málanna, hvað menn hafa skrifað mikið o.s.frv. um lögfræðileg málefni. En stundum er enginn áberandi munur. Hann getur kannski fundist, annar er kannski örlítið hæfari en hinn. En vandamálið í kringum þetta er að allt svigrúm er tekið af ráðherranum og sagt: Þessi er hæfastur. Þegar mér hefur kannski sjálfum fundist þrír af þessum sjö ósköp svipaðir er einn kannski tekinn fram yfir.

Það er það sem ég vil ekki sjá, þ.e. að ráðherra væri ekki bundinn af þessu. Ég hefði helst viljað sjá annað í frumvarpinu. Ráðherra ber pólitíska ábyrgð. Mér finnst mjög eðlilegt að það sé nefnd sem meti og fari yfir og dragi saman þessi atriði, en ef ráðherra fer með mjög grófum hætti gegn mati nefndarinnar og munurinn er mikill þá tekur hann pólitíska áhættu. En hann ber þó einhverja ábyrgð. Þeir í nefndinni geta bara gert hvað sem er og bera enga ábyrgð.

Ég tel því mikilvægt að breyta þessu, hvort sem við gerum það núna eða ekki. Ég get alveg fallist á að við erum í svolítilli tímaþröng með þetta mál. Það þyrfti kannski að skoða betur hvernig ætti að hafa það, að klára það núna með þessum hætti eins og það er og hefur verið hvað þetta varðar, enda fer frumvarpið fyrir þingið núna. En í framtíðinni vil ég sjá það þannig að umboðslaust fólk í nefnd af þessu tagi hafi ekki valdið sjálft heldur sé valdið ráðherrans, en auðvitað er svona nefnd ráðherra mikið til aðstoðar við mat hans. Ég vil sjá breytingu á þessu þegar fram í sækir, ef ég ekki bara beinlínis með breytingartillögu um það núna í meðferð málsins, sem gæti gerst. En af því að þetta mál er svolítið öðruvísi vaxið en önnur, verið er að skipa hér 15 manns í einu, hef ég minni áhyggjur af þessu núna.

En til framtíðar litið teldi ég mikilvægt að það yrði endurskoðað og því breytt og jafnvel ýmsu fleira kringum það hvað haft er til viðmiðunar, vegna þess að þarna eru tiltekin ýmis atriði, reynsla af stjórnsýslu, hvað menn hafa skrifað o.s.frv., ekki endilega hvort mikið er af viti í því sem menn hafa skrifað eða hvað menn hafa staðið sig vel í starfinu, heldur hafa menn safnað í eitthvert púkk, hafa kannski verið víða af því að þeir hafa hvergi getað unnið almennilega, þá fer það að „tikka“ í svona mati. Ég er ekki hrifinn af því. Ég held að það ætti að endurskoða það líka. Ég tel að svona nefnd sé fyrst og fremst ráðherra til aðstoðar til þess að auðvelda honum matið og þannig eigi það að vera því að ráðherrann einn ber ábyrgðina á þessu á endanum.

Við gætum alveg haft það þannig í framtíðinni að almennt komi samþykki þingsins fyrir hvert dómaraefni, jafnvel að dómaraefnin komi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum o.s.frv. Ég er ekkert búinn að hugsa það, en það er hugsanlegur möguleiki. Aðalatriðið er að þetta vald sé ekki alfarið á hendi umboðslauss fólks úti í bæ, eins og ég kalla það.

Ég skildi orð ráðherra þannig að þetta yrði nú eitthvað skoðað betur þegar þessu er lokið hér varðandi Landsyfirréttinn. Ég treysti því.