146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri gamla sögu og nýja á hv. þingmanni. Mér heyrist að það sé bara tímaspursmál hvenær konum fjölgi í Hæstarétti og við konurnar bíðum bara stilltar eftir að vaxa úr grasi og hljóta náð fyrir augum valnefndarinnar. (Gripið fram í.)Nei, nei, það erum við sem erum stilltar, Brynjar, ekki lögfræðingarnir í valnefndinni sem við erum að tala um að breyta.

Hv. þingmaður vísaði í að við værum hér að hringla öllu í einhvern einn graut þegar við værum að ræða um jöfn kynjahlutföll dómara. Ég vil vísa í mína eigin ræðu þar sem ég var að vísa í jöfn kynjahlutföll valnefndar sem er einmitt til umræðu akkúrat núna. Það þarf engum lögum að breyta að mínu viti til að það sé í gildi. En hins vegar hefur borið við að þetta hefur ekki verið virt, þ.e. ákvæði jafnréttislaga sem eru fyrir hendi og ég leyfði mér að fletta upp og vísa í, með leyfi forseta:

„Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.“

Svo heldur þetta áfram og er útlistað ágætlega í jafnréttislögum. Það sem ég var að vísa til eru fyrirhugaðar breytingar á valnefnd sem mun skipa þessa dómara.

Ég spyr: Fyrst verið er að breyta lögum um valnefnd, af hverju ekki að tryggja að jafnréttislögin eigi vissulega við þessa nefnd eins og aðrar nefndir hins opinbera? Þykir hv. þingmanni ekki mikilvægt í réttarríki að dómstólar, þ.e. dómarar, endurspegli fjölbreytileika mannlífsins, að það sé eitthvað hugað að kynjasjónarmiðum og jafnvel frekari sjónarmiðum fjölbreytileika þegar kemur að skipun dómara?