146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég tel auðvitað fjölbreytileika mikilvægan, ekki bara um kynin heldur um bakgrunninn, hvar menn hafa verið áður. Það er margs að gæta í því.

Hins vegar af því að hv. þingmaður las úr lögunum, þá eru ákvæðin um nefndina þannig að hver þessara aðila tilnefnir einn. Eins og ég sagði í ræðunni áðan, þessi eini er af öðru hvoru kyninu. Þetta er auðvitað sérákvæði um hvernig skuli skipa þessa nefnd.

Af hverju þessu er ekki breytt núna á hv. þingmaður auðvitað að spyrja hæstv. ráðherra um, ég get ekki svarað því af hverju er ekki verið að breyta því. Eðlilegra væri bara að ráðherra tilnefndi í nefndina, og þá fer hann auðvitað að lögum og tilnefnir jafnt eftir kynjum eftir því sem hægt er. En af því þetta er gert með þessum hætti kann það að gerast að þá halli á annað hvort kynið.

Ef Lögmannafélagið ákveður núna að hafa konu og svo kemur Hæstiréttur með tvær konur eða eina konu og einn karl, svo kemur Dómarafélagið með eina konu og Alþingi með eina konu. Þá er komið 4:1 konum í vil.

En það þarf að breyta þessu tilnefningar- og skipunarferli til að laga þetta. Það þýðir ekkert að lesa upp úr lögunum. Hæstiréttur hefur sjálfur sagt, útskýrt þetta, hvers vegna þetta getur orðið með þessum hætti og telur sig ekki bundinn þeim ákvæðum jafnréttislaga sem þingmaðurinn minntist á.