146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er auðvitað alveg sammála hæstv. ráðherra um að það eigi ekki að ráða einhver önnur sjónarmið þegar við erum með í lögum að okkur beri að velja þann hæfasta. Þá getum við ekki tekið einhver önnur sjónarmið, þá bara gilda þau. Svo getum við deilt um það hver er hinn hæfasti. En hv. þingmaður spurði hvernig við upprætum kynjahallann. Ég held að við höfum upprætt hann að mestu leyti og það gerist af sjálfu sér á mjög skömmum tíma að öðru leyti. (RBB: Við höfum beðið í tíu ár.) Nei, ég var einmitt að segja það áðan að konum í þessari stétt hefur vegnað mjög vel. Þetta fer bara eftir því hvað þær eru margar. Ég get ekki að því gert að konur voru ekki í laganámi fyrr en um 1980. Það var bara ekki þannig (RBB: Er ekki tækifæri til að setja ný lög?) Nei, ég segi: Horfum fyrst og fremst á hæfnina vegna þess að þetta er svo mikilvægt vald. Konur eru ekkert lakari og þetta kemur af sjálfu sér þegar reynslan er orðin jafn mikil og fjöldi þeirra er orðinn jafn mikill og karla með þessa miklu reynslu. Þá gerist það af sjálfu sér. Það þýðir ekkert að arga yfir því að það sé ekki nógu jafnt af kynjum einhvers staðar þegar (Forseti hringir.) karlar eru miklu fleiri eins og hefur verið undanfarin ár eða áratugi. (Forseti hringir.) En það er að breytast. (RBB: Árhundruð.)