146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Okkur er falin, þingmönnum og ráðherrum, ábyrgð á þessum málaflokkum. En þegar við erum að fara í mat á hæfni er mjög mikilvægt fyrir okkur, sem þurfum að taka ákvörðun á endanum, að menn hafi farið í gegnum umsækjendur sem geta metið þá. Við höfum verið svo gæfusöm að við höfum oftast haft lögfræðing sem dómsmálaráðherra og við erum með það núna, meira að segja mjög góðan lögfræðing, en ég held að það sé auðvitað ekki skilyrði. Ég er heldur ekki að segja að það megi ekki einhver ólöglærður vera í nefndinni. En á endanum er það þannig, af því að við tölum um mikilvægt vald þarna hjá dómurum, að við höfum í nefndinni, a.m.k. í meiri hluta hennar, (Forseti hringir.) aðila sem geta metið mun á milli manna, af því að við erum að meta mun (Forseti hringir.) á milli manna. Það er það mikilvæga í því.