146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

heilbrigðisáætlun og hjúkrunarheimili.

[11:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um heilbrigðismál síðustu daga, eðli málsins samkvæmt, og m.a. í sérstökum umræðum í þinginu. Við Framsóknarmenn, undir forystu hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, höfum lagt fram heilbrigðisáætlun vegna þess að við teljum að forsenda sé fyrir því að fara í uppbyggingu, að menn séu búnir að kortleggja hvað þeir ætla að gera. Ég hefði áhuga á að heyra afstöðu ráðherrans til þessarar þingsályktunartillögu. Jafnframt hefur ráðherrann í ræðu og riti á síðustu dögum komið fram með upplýsingar um að það standi til mikil uppbygging, m.a. á fjölgun hjúkrunarheimila sem ekki veitir af. Því vil ég einnig spyrja ráðherrann hvort búast megi við að hann muni uppfæra áætlun fyrri ráðherra, sem lagði fram tillögur um uppbyggingu á fimm hjúkrunarheimilum, og ef slík uppfærsla yrði færð hér inn í þingið þá hvenær.

Á Suðurlandi er búið að loka tveimur dvalar- og hjúkrunarrýmum, annars vegar Blesastöðum og hins vegar Kumbaravogi, þar sem er verið að loka allt að 50 rýmum. Til stendur að byggja nýtt hjúkrunarheimili með 50 rýmum sem á að vera lokið 2019 á svæði þar sem langir biðlistar eru, með þeim lengstu á landinu. Ég veit að áhugahópur um að framlengja líf Kumbaravogs hefur hitt ráðuneytið og aðstoðarmenn ráðherra, og því spyr ég: Til hvaða bragðs ætlar hæstv. ráðherra að grípa í þessari erfiðari stöðu á Suðurlandi? Kemur til greina af hans hálfu að framlengja líf Kumbaravogs þangað til nýtt hjúkrunarheimili rís? Hefur ráðherra uppi hugmyndir um að stækka hið nýja hjúkrunarheimili og að flýta þeim framkvæmdum? Ég veit að það eru mjög margir á Suðurlandi sem bíða eftir að fá skýr svör ráðherra úr pontu í dag.