146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

heilbrigðisáætlun og hjúkrunarheimili.

[11:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla í seinni ræðu að afmarka mig betur svo ég fái skýrari svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Styður hæstv. ráðherra þingsályktun um heilbrigðisáætlun sem er hér fyrir þinginu? Þegar hæstv. ráðherra segir að góðu fréttirnar séu að búið sé að koma fólki fyrir þá er rétt að búið er að koma því fyrir, reyndar með einstaka hreppaflutningum sem aldrei eru góðar fréttir. En vonda hlið hinna góðu frétta er að þeir sem voru á biðlista áður og voru númer tvö til þrjú eru núna númer átta til níu. Biðlistarnir lengjast og það verður þyngra og erfiðara fyrir þá sem sáu fram á að komast í hjúkrunarrými fljótlega að horfa til þess að það gerist mjög seint.

Því spyr ég aftur: Hyggst ráðherrann og ráðuneytið grípa til einhverra sérstakra aðgerða, hugsanlega að opna Kumbaravog að nýju? Ég veit að fólk hefur bæði safnað þar peningum, átt samskipti við heilbrigðisyfirvöld og brunamálayfirvöld. Eða ætlar ráðherrann að stækka fyrirhugað hjúkrunarheimili á Selfossi (Forseti hringir.) og flýta þeim framkvæmdum? Eitthvað verður að gera.