146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

heilbrigðisáætlun og hjúkrunarheimili.

[11:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér áður í fyrra svari mínu vannst mér ekki tími til þess að svara að öllu leyti fyrirspurn hv. þingmanns. Hv. þingmaður talar um hreppaflutninga. Það er vissulega rétt að það eru ekki allir íbúar Kumbaravogs sem flytjast á staði á svæðinu enda er það nú svo að það komu ekki allir íbúar Kumbaravogs af Suðurlandi og margir þeirra óskuðu frekar eftir því að fara aftur á aðra staði á landinu.

Í ráðuneytinu er verið að skoða stöðu hjúkrunarheimila og -plássa á Suðurlandi. Það hafa einhverjar aðgerðir nú þegar komið til framkvæmda. Það er fjölgun um einhver rými í Hveragerði og á dögunum var verið að opna nýja álmu á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, þannig að það eru aðgerðir í gangi. Eitt af því sem ég hef skoðað og er að skoða núna er (Forseti hringir.) uppbyggingin á Selfossi, en ég er ekki með endanlega niðurstöðu í því máli eins og er.